Kardimommubærinn á Króknum

Kardimommubærinn eftir Thorbjørn Egner í uppfærslu Leikfélags Sauðárkróks. Ljósm./Gunnhildur Gísladóttir.
Kardimommubærinn eftir Thorbjørn Egner í uppfærslu Leikfélags Sauðárkróks. Ljósm./Gunnhildur Gísladóttir.

Svei mér, ekki aftur. Ekki aftur Thorbjørn Egner, hvað sem leikritið nú heitir. Karíus, Dýrin, Kardimomman. Nei takk. Er ekki til neitt af nýjum, íslenskum leikritum handa börnum, spurði ég mig, er ekki til urmull af nútíma leikritum? Jú, Leikfélag Sauðárkróks hefur af og til sviðssett önnur barnaleikrit, jafnvel íslensk. En það virðist samt sem leikritin hans Egners liggi höndinni næst þegar skemmta á börnum á Íslandi. Heima í Þýskalandi er „Die Räuber von Kardemomme“ varla að finna á leikskrá leikhúsa.

Þar sem ég hef átt heima á Íslandi mjög lengi og á börn hér, sem núna eru löngu uppkomin, hef ég fengið ótal tækifæri til að fylgjast með afar misjöfnum uppsetningum af leikritum Egners. Á árshátíðum skólans fylgdist ég með sonum mínum í hlutverkum Mikka refs eða bakarans. Einu sinnu voru þeir að leika tré eða jafnvel hurð. Ég sá leikritin á sviðum atvinnuleikhúsa í fylgd barna minna, á sviðum áhugamannaleikhúsa í fylgd sömu einstaklinganna. Hlustaði á hljómdiska með söngvum úr leikritunum með þeim. Hef aldrei verið hrifin af söngvaleiksýningum. Hef alltaf haldið að leikritin Egners séu ekki alveg í takt við samtímann en beri með sér einskonar 19. aldar blæ, en þrátt fyrir það var salurinn, hvar sem var, aldrei sammála mér. Allar uppfærslunar, hvort sem um atvinnu- eða áhugamannaleikhús eða skólaleikhús var að ræða, hittu beint í mark hjá unga fólkinu.

Og þegar mér var núna boðið til að koma frá Hvammstanga á Krókinn og skemmta mér með leikhópnum yfir Egner leikriti, þá fór mér aftur að smá leiðast. Með fullri virðingu fyrir verki Egners og vinsældum þess. Enda er ferð frá Hvammstanga á Krókinn með leiksýningu innifalinni hátt í sex tíma stúss. En ég vildi alls ekki hunsa gott boð. Því ákváð ég að fara til Sauðárkróks og taka með mér tvo væna aðstoðamenn, annan 10 ára og hinn 7. Ekki ættarbörn, en góðir kunningjar. Þeirra bakgrunnur er ekki íslenskur frekar en minn. Því hafa þeir hvorki séð leikritið fyrr né hlustað á ótal spólur með lögum úr leikritum Egners eða skoðað bækur eftir hann. En þeir eru klárir og tala hina fínustu íslensku eftir fáein ár í Húnaþingi og meira að segja tala þeir íslensku sín á milli þó að móðurmálið sé annað. Enginn vandi fyrir þá að sökkva sér eina dagsstund í eitt stykki leikrit.

Gott og vel. Það er stutt frá því að segja að annar drengjanna spurði mig eftir uppfærslu leikritsins á Króknum, þegar allt klappið var afstaðið og áhorfendurnir og leikararnir voru á leið út, hvenær næsta sýning ætti að vera og hvort við mættum ekki bara bíða á Króknum þangað til, því að hann ætlaði sér að sjá leiksýninguna einu sinni enn. Þvílíkur gæðastimpill!

Og eins og hann var ég alveg sátt við uppfærslu Leikfélags Sauðárkróks á Kardimommubænum.

Dansatriðin og söngatriðin heppnuðust sérstaklega vel. Allur leikhópurinn er vel samstilltur og valinn maður í hverju hlutverki. Ég fann hversu gaman það hlýtur að vera að fara með hlutverk Soffíu, bakarans eða páfagauksins svo að fáein dæmi séu nefnd. Eða fá að prumpa eins og villimenn. Ræningjarnir eru teymi klaufalegra „sérfræðinga“ og svo samstilltir í leik sínum að unun er af. Uppáhaldið mitt er Pontíus asni, frábær leikur og flott gervi. Sennilega er líka mjög gaman að vera sminka eða búningadama, enda öll gervi vel úthugsuð og fín. Og svo er annað. Hundarnir, kötturinn, asnanir, pylsugerðamaðurinn og öll hin, fógetinn og fógetafrú – það er hlýja í þeim öllum. Og þar með opnast dýpri merkingu leikritsins fyrir ungviðið sem horfði á án þess að gefa frá sér múkk. Merking sem er mannelska, virðing og hlýja.

Soffía til dæmis má vera skapstór en hún nýtur samt virðingar í samfélaginu sínu. Rængjarnir fá tækifæri til að aðlagast samfélaginu. Ljónið einnig. Allir halda upp á afmælið Tobíasar gamla, manns sem þætti í meira lagi skrýtinn í öðrum samfélögum og fengi þar kannski fáa í afmælisheimsókn. Það eru virðing og hlýja sem undir liggja og hefur leikstjóranum tekist afar vel til við að draga þessa þætti handritsins í ljós, án þess að þurfa að veifa vasaklút, handklæði eða jafnvel laki svo að áhorfendur fatti.

Vissulega fannst mér sýningin á köflum of löng en það er vegna ofangreindrar forsögu mínar og Egners. En ég hló líka oftar en einu sinni frá hjartanu því að leikurinn og öll umgjörð sýningar voru svo innilega hlý og flott og skemmtileg.

Mér skilst að minnst 40 manns komi að þessari sýningu og eru þá ótaldir margir, t.d. þeir sem gerðu sýningaskrá og margt fleira. Þeir eiga allir hrós skilið.

En sýningin er fín, ég mæli með henni.

Gudrun M. H. Kloes

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir