Ísgel framleiðir gelmottur á Blönduósi - sjötti þáttur Fyrirmyndarfrumkvöðla

Í sjötta þætti Fyrirmyndarfrumkvöðla er rætt við Zophonías Ara Lárusson , einn eiganda Ísgels á Blönduósi. /Skjáskot úr þætti.
Í sjötta þætti Fyrirmyndarfrumkvöðla er rætt við Zophonías Ara Lárusson , einn eiganda Ísgels á Blönduósi. /Skjáskot úr þætti.

Í sjötta þætti Fyrirmyndarfrumkvöðla er rætt við Zophonías Ara Lárusson , einn eiganda Ísgels á Blönduósi. Fyrirtækið framleiðir gelmottur sem viðhalda kælingu ferskra matvæla á meðan á flutningi stendur, frystipoka, margnota kæli- og hitagelpoka og einnota kælipoka sem eru góðir fyrir íþróttafólk og í sjúkrakassann.

Sífellt fleiri fiskvinnslufyrirtæki eru að taka gelmotturnar í notkun við flutning á fiski með flugfrakt. Þær þykja að mörgu leyti hentugri en ís, minna þarf af mottunum og ekki er hætta á leka. Í þættinum segir Zophonías frá því hvernig fyrirtækinu hefur vaxið fiskur um hrygg eftir efnahagshrunið með batnandi afkomu sjávarútvegarins og auknum fiskútflutningi. Þá fór fyrirtækið í markaðsherferð til Noregs og Færeyja og eru þeir bjartsýnir á að það muni skila sér með auknum umsvifum út fyrir landsteinanna.  

 

Sem fyrr segir er þetta sjötti þátturinn þar sem fyrirtæki heimsótt og farið er yfir starfsemina. Í lokaþættinum, sem sýndur verður í beinni útsendingu kl. 12 á hádegi laugardaginn 28. nóvember nk., koma viðmælendur allra sex fyrirtækjanna saman, ásamt þriggja manna ráðgjafanefnd, og ræða um frumkvöðlastarf.

Fyrirmyndarfrumkvöðlar er samstarfsverkefni Feykis og Skottu kvikmyndafjelags. Þáttagerðin er í höndum Árna Gunnarsson kvikmyndagerðarmanns, Berglindar Þorsteinsdóttur, ritstjóra Feykis og Kristínar Einarsdóttur, blaðamanns hjá Feyki. Þáttastjórnendur eru Berglind og Kristín en um upptökur og eftirvinnslu sér Árni Gunnarsson.

Í fyrsta þætti voru Ásdís Sigurjónsdóttir, Einar E. Einarsson og Sólborg Una Pálsdóttir á Syðra-Skörðugili í Skagafirði. Þau standa að framleiðslu smyrsla og leðurfeiti úr minkafitu undir vörumerkinu Gandur.

  

Í öðrum þætti Fyrirmyndarfrumkvöðla fengum við að kynnast Lilju Gunnlaugsdóttur, sem rekur handverksfyrirtækið Skrautmen, og líta inn í vinnustofu hennar að Áshildarholti í Skagafirði.

  

Í þriðja þætti Fyrirmyndarfrumkvöðla heimsóttum við Jóhannes Gunnar Þorsteinsson tölvuleikja- og hljóðhönnuð og sambýliskonu hans, Arnfríði Hönnu Hreinsdóttur, á Kollafossi í Miðfirði. Í Kollafossi reka þau leikjamiðstöð, þar sem þau bjóða öðrum tölvuleikjahönnuðum í sveitasæluna, svo þeir geti einbeitt sér að vinnu sinni í friði og ró.

  

Í fjórða þætti Fyrirmyndarfrumkvöðla heimsóttum við fyrirtækið Iceprotein í Verinu á Sauðárkróki. Rætt var við Hólmfríði Sveinsdóttur framkvæmdastjóra og fylgst með vinnsluferlinu þegar þorskprótein eru unnin úr afskurði frá Fisk Seafood.

 

Í fimmta þætti Fyrirmyndarfrumkvöðla er rætt við Hólmfríði Ósmann Jónsdóttur arkitekt og Einar Daníel Karlsson smið. Þau eru að fara af stað með framleiðslu á stólalínu sem þau kalla Floating Fender Chair og þau hanna og smíða í samstarfi við Hrefnu Björg Þorsteinsdóttur arkitekt og Ágúst Þorbjörnsson málmsmið. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir