Húlladúll á Hvammstanga
Nú styttist í að hátíðin Eldur í Húnaþingi hefjist en hún verður sett eftir slétta viku, miðvikudaginn 26. júlí og er undirbúningur í fullum gangi. Dagana á undan verður hægt að gera sér ýmislegt til dundurs og eins og Feykir.is sagði frá á dögunum verður efnt til námskeiðs í brúðugerð fyrir skrúðgönguna á opnunarhátíðinni.
Fyrir þá sem áhuga hafa á sirkuslistum verður einnig í boði spennandi námskeið dagana á undan og fá þátttakendur tækifæri til að verða með atriði í skrúðgöngunni. Í námskeiðslýsingu segir: „Þátttakendur kynnast töfrum sirkuslistanna á skemmtilegu námskeiði. Við munum húlla, djöggla slæðum, boltum og hringjum, leika okkur að þyrilstöfum og sveiflusekkjum, læra fimleikakúnstir, láta eins og alvöru trúðar, vagga á veltibrettum, halda jafnvægi á töfrafjöðrum og skemmta okkur virkilega vel saman. Í lok námskeiðs bjóðum við fjölskyldu og vinum í heimsókn að sjá og prófa sirkuskúnstir.“ Það er Húlladúllan, Unnur María Máney sjálfstætt starfandi sirkuslistakona, sem kennir á námskeiðinu en hún hefur starfað við sirkuslistir og kennslu í Mexíkó, Bretlandi og á Íslandi.
Þeir sem hafa áhuga á að skella sér á þetta spennandi námskeið geta skráð sig hér: https://goo.gl/forms/Vkgf9yNJI3meihW52 . Námskeiðið, sem er 15 klukkustundir alls, verður í íþróttahúsinu á Hvammstanga dagana 24. – 26. júlí klukkan 9 – 13 og kostar 12.000 kr. Veittur er 10% systkinaafsláttur.
Húlladúllan veitir nánari upplýsingar í tölvupósti: hulladullan@gmail.com, á Facebook og í síma 612 2727.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.