Höfðingleg gjöf frá hjónunum á Tannstaðabakka

Skúli (annar frá vinstri) og Ólöf (þriðja frá vinstri) afhentu Tónlistarskólanum veglega gjöf, peningaupphæð sem safnað var í sameiginlegu afmæli þeirra fyrr í október.
Skúli (annar frá vinstri) og Ólöf (þriðja frá vinstri) afhentu Tónlistarskólanum veglega gjöf, peningaupphæð sem safnað var í sameiginlegu afmæli þeirra fyrr í október.

Á mánudaginn var Tónlistarskóla Húnaþings vestra afhent vegleg peningagjöf frá þeim hjónum Skúla Einarssyni og Ólöfu Ólafsdóttur á Tannstaðabakka. Fjárhæðin nam 404.000 kr. og er afrakstur söfnunar í sameiginlegri 120 ára afmælisveislu hjónanna sem haldin var í október.

Skúli og Ólöf höfðu afþakkað afmælisgjafir og bent fólki á að á staðnum yrði baukur til styrktar tónlistarskólanum, fyrir þá sem það vildu. Baukurinn var í formi mjólkurbrúsa og voru veislugestir duglegir að lauma í hann styrktarfé, eins og sagt er frá á vefnum Norðanátt.               
Við afhendinguna, sem fór fram í húsnæði tónlistarskólans, söng Skúli tvö lög, en hann er einmitt nemandi við tónlistarskólann. Hann naut liðsinnis Daníels Geirs Sigurðssonar, Elínborgar Sigurgeirsdóttur og Guðmundar Hólmars Jónssonar við undirleik.   

Haft er eftir Skúla á Norðanátt að fjárhæðin sem safnaðist hafi orðið mun hærri en þau höfðu búist við, en þau hafi í raun rennt blint í sjóinn með það hvort veislugestir myndu lauma smáræði í brúsann eður ei. Hann sagði starfið í tónlistarskólanum skipta verulegu máli fyrir svæðið hér og gera lífið eftirsóknarvert. Skólinn sé skipaður fjölbreyttu og einvala liði kennara sem sé að skila góðum árangri fyrir samfélagið og ávinningi í víðum skilningi. Þá sagði hann áríðandi að huga að húsnæðismálum skólans til framtíðar.        

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, oddviti sveitarstjórnar Húnaþings vestra, sagði gjöfina virðingarverða og þakkaði vel fyrir. Hún sagði jafnframt að einn mesti styrkur sveitarfélagsins væri það hversu þétt staðið væri á bakvið tónlistarskólann og hversu duglegir sveitungarnir eru að hjálpast að við að hlúa vel að málum sem skipta máli. Þá þakkaði Elínborg Sigurgeirsdóttir, skólastjóri, fyrir sig og hlýhug til tónlistarskólans, segir loks í frétt á Norðanátt.

Þess má geta að opnuviðtal við Skúla og Ólöfu birtist í Feyki fyrr í þessum mánuði.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir