Hlaupa til styrktar Ívari Elí
Nemendur 7. og 8. bekkjar í Varmahlíðarskóla ætla að hlaupa áheitahlaup til styrktar Ívar Elí Sigurjónssyni, ungum dreng á Sauðárkróki, sem berst við flogaveiki og þarf á næstunni að fara erlendis til lækninga.
Að sögn Írisar Olgu Lúðvíksdóttur, kennara í Varmahlíðarskóla, sem hefur umsjón með verkefninu, er þetta í þriðja sinn sem 7. og 8. bekkur skólans hleypur svokallaðan Hegraneshring til styrktar góðu málefni. Hugmyndin kviknaði út frá forvarnafræðslu um tóbak fyrir nokkrum árum og ákváðu krakkarnir þá að hlaupa til styrktar Krabbameinsfélagi Skagafjarðar. Söfnuðu þau 700 þúsund krónum.
„Ég kannaði svo tveimur árum seinna hvort þáverandi 7. og 8. bekkur hefði áhuga á svona verkefni og þau endurtóku leikinn. Í það skiptið söfnuðu þau einni milljón,“ segir Íris Olga og bætir því við að í ár hafi kviknað sú hugmynd að styrkja fjölskyldu Ívars Elí.
„Þau eru búin að vera að safna áheitum síðan í byrjun apríl og þeim hefur alls staðar verið tekið opnum örmum,“ segir Íris Olga þakklát. Hópurinn áformar að leggja af stað klukkan níu að morgni næstkomandi miðvikudags og ef vel gengur líkur hlaupinu um klukkan 18 eða 19 um kvöldið. Öllum sem vilja er velkomið að hlaupa með hluta leiðarinnar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.