Heyskapur hefur gengið vel í eindæma tíðarfari

Þessi mynd var tekin á Veðramóti í Gönguskörðum í síðustu viku. Mynd: KSE
Þessi mynd var tekin á Veðramóti í Gönguskörðum í síðustu viku. Mynd: KSE

Fyrri slætti er víðast hvað lokið á Norðurlandi vestra og hefur heyskapur almennt gengið vel, enda tíðarfar með eindæmum gott. Bændur sem Feykir hafði samband við létu vel af heyjum og tíðarfari, þó að sums staðar sé töluvert um kal. Þá lítur vel út með kornrækt og gæti þresking hafist í byrjun september.

„Fyrri slætti víðast lokið og hefur almennt gengið vel, meiri uppskera og heyjað mun fyrr en í fyrra. Hey ættu víðast hvar í sýslunni að vera góð eftir sumarið, takist vel til með verkun. Þá háarspretta komin vel af stað,“ sagði Sigríður Ólafsdóttir bóndi og ráðunautur í Víðidalstungu í Húnaþingi vestra, í samtali við Feyki

„Það hefur gengið ótrúlega vel á þessu góða sumri. Við slógum heldur fyrr vegna góðs tíðarfars en fengum svipaða uppskeru og venjulega þrátt fyrir það. Margir kúabændur eru líklega búnir fyrir allnokkru og sauðfjárbændur langt komnir eða búnir,“ sagði Eydís Magnúsdóttir í Sölvanesi, þegar Feykir hafði samband við hana í gær.

Sömu sögu er að segja í Keldudal í Hegranesi, en þar er fyrrislætti lokið, mun fyrr en í fyrra. „Uppskeran var ágæt og heyin góð. Það lítur líka mjög vel út með kornið og þresking gæti hafist í byrjun september ef tíðin verður áfram góð,“ sagði Guðrún Lárusdóttir, bóndi í Keldudal

Þorlákur Sigurbjörnsson, bóndi í Langhúsum í Fljótum, kláraði fyrrislátt á miðvikudaginn, en sagðist þó eiga eftir dálítið fyrir hross sem þyrfti að fá að spretta úrsér, og yrði ekki tekið fyrr en eftir mánaðarmót. „ Það hefur gengið vel og þetta eru góð hey en magnið minna en oft áður, enda talsvert kalið,“ sagði Þorlákur.

Á Hæli í Húnavatnshreppi er fyrri slætti lokið og hefur heyskapur gengið vel til þessa. „Heyin eru góð og tíðin hefur verið einstaklega góð, heitt og rakt svo sprettan er með besta móti,“ sagði Ásdís Ýr Arnardóttir, þegar Feykir heyrði í henni í gær.

Blaðamaður heyrði einnig í Helgu Sjöfn Helgadóttur í Hátúni í fyrrum Seyluhrepp. Sagði hún að kúabændur hefðu almennt lokið slætti í lok júní og sauðfjárbændur væru að klára fyrri slátt. „Almennt hefur gengið mjög vel og gòð uppskera. Útlit er fyrir góða uppskeru af grænfóðri og há,“ sagði Helga Sjöfn.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir