Háskólalestin á Blönduósi um hvítasunnuhelgina
Háskólalestin nemur staðar á Blönduósi dagana 13. og 14 maí með fjölbreytta dagskrá, bæði fyrir nemendur í eldri bekkjum grunnskóla á svæðinu og alla fjölskylduna í veglegri vísindaveislu í Félagsheimili Blönduóss.
Föstudaginn 13. maí munu starfsmenn Háskólalestarinnar, sem eru nemendur og kennarar við Háskóla Íslands, taka að sér kennslu í eldri bekkjum Blönduskóla og bjóða upp á fjölbreytt námskeið úr Háskóla unga fólksins. Námskeiðin sækja einnig nemendur úr Höfðaskóla á Skagaströnd og Húnavallaskóla. Samtals munu því um 150 nemendur sækja námskeið í greinum eins og blaða- og fréttamennsku, eðlisfræði og efnafræði, vindmyllusmíði og vísindaheimspeki, japönsku og jarðfræði, stjörnufræði og smíði kappakstursbíls auk leiks að hljóði.
Daginn eftir, laugardaginn 14. maí, er svo komið að vísindaveislu í Félagsheimili Blönduóss en hún er opin heimamönnum og nærsveitungum á öllum aldri. Þar verður hægt að prófa alls kyns þrautir, tilraunir og tæki, ferðast um himingeiminn í stjörnutjaldi, kynna sér fjölbreyttar steintegundir og undraheima Japans og fylgjast með efnafræðisýningu Sprengju-Kötu svo eitthvað sé nefnt. Ókeypis aðgangur og allir velkomnir.
Háskólalestin hóf yfirreið sína um Vestur- og Norðvesturland um síðustu helgi þegar hún heimsótti Búðardal með dúndrandi fjör og fræði. Alls hefur lestin heimsótt hátt í 30 staði frá árinu 2011 þegar hún lagði upp í sína fyrstu ferð og hefur henni verið tekið með kostum og kynjum á öllum áfangastöðum.
Hægt er að fylgjast með Háskólalestinni á vefsíðu verkefnisins og fésbókarsíðu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.