Glært plast og rykdustarar
Fyrir nokkrum árum var ég ein af þeim sem elskaði að hlaða á sig fylgihlutum og myndi reyndar gera meira af því í dag ef ég væri ekki með nikkel ofnæmi, þá sérstaklega skartið. Reyndar verð ég að viðurkenna að ég hætti alveg að ganga með allar gerðir af fylgihlutum eftir að ég eignaðist börnin mín, meira að segja töskur, því með þessum ungabörnum fylgir svo mikil fyrirferð og dót að ég nennti ekki að burðast með enn meira fyrir sjálfa mig.
En það sem er áberandi á tískupöllunum hjá stóru tískuhúsunum endurspeglar oft á tíðum það sem er í þann mund að detta inn í verslanir en svo er svo skemmtilegt með fylgihlutina og skartið að það „lifir“ mikið lengur en flestar tískubólur í fatnaðinum.
Glært plastefni var mjög áberandi á tískupöllunum. Ég veit reyndar ekki hvort ég sé tilbúin að nota tösku í þessum stíl en íslenskt kvenfólk er þekkt fyrir það að finna aldrei neitt í sínum eigin töskum, kannski þetta sé lausnin á því vandamáli, þá sjá þær betur hvar allt er.
Svokallaðir „rykdustarar“ eða axlasíðir eyrnalokkar komu oft fyrir. Þá var einnig áberandi að vera með sitthvora gerðina í eyrunum eða jafnvel bara einn lokk í öðru eyranu og engan í hinu, skemmtileg og flott tíska.
Þá þótti mér ótrúlega gaman að sjá mikið um fallegt höfuðskraut og nettar líkamskeðjur á tískupöllunum en þetta tvennt hefur verið að ryðja sér til rúms undanfarin misseri.
Keðjur virðast vera að koma aftur inn. Á tískupöllunum sástu þær bæði á skóm, töskum og á hálsmenum sem lágu þétt upp við hálsin, lítið var um að hönnuðurnir færu milliveginn því einnig voru mjög síð hálsmen áberandi.
Ég hlakka því mikið til að geta sett á mig eins og eitt höfuðskraut á fallegum degi í sumar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.