„Glaðasólskin allan tímann“
Eins og greint var frá á forsíðu Feykis í síðustu viku voru sextíu nemar í ferðamálafræði og landfræði við Háskóla Íslands staddir í námsferð í Skagafirði. Hópurinn dvaldi á Hólum alla vikuna og stundaði rannsóknir meðan á dvölinni stóð. Verkefnin voru valfrjáls en fólust m.a. í að taka viðtöl við fjölda fólks og afla upplýsinga um viðfangsefni tengd Skagafirði, undir umsjá Áskels Heiðars Ásgeirssonar og Egils Erlendssonar.
Blaðamaður Feykis hitti þær stöllur Sædísi Ólöfu Þórsdóttur og Öldu Björk Aðalsteinsdóttur. „Við erum að vinna BS verkefnið okkar og er venjan að fara á eitthvað tiltekið svæði innanlands, í þetta sinn varð Skagafjörður fyrir valinu,“ sagði Sædís. „Fjölbreytileikinn er mikill en þó er mikið álag á ýmsa aðila. Í dag eru til að mynda margir með bókað viðtal við Laufey, sem vinnur á skrifstofu Skagafjarðar, og hún situr fyrir svörum frá 8 til 20 hef ég heyrt, svo hún verður ábyggilega búin með orðaskammtinn sinn fyrir vikuna.“
„Ferðin var í okkar tilfelli mjög lærdómsrík. Við höfðum áhuga á menningartengdri ferðamennsku og því gaman að skoða og fræðast um það sem er í boði í Skagafirði og geta borið það saman og greint samkvæmt þeim fræðum sem við höfum lært. Við komumst að því að það er mikið í boði fyrir ferðamenn í Skagafirði og gríðarlega fjölbreytt. Þar kemur samt vandamálið sem Skagafjörður hefur verið að eiga við og það er ímynd skagafjarðar og hver hún sé í markaðssetningu,“ sagði Sædís í samtali við Feyki.
Hún segir ferðina í heild hafa heppnast afar vel. „Ekki skemmdi fyrir að það var glaðasólskin allan tímann á meðan rigningargusur voru yfir Reykjavík.“ Hún segir misjafnt eftir hópum hversu mikið þeir áttu bókað af fundum við fólk á svæðinu en allir hefðu haft orð því hversu vel ferðin heppnaðist og vel hafi verið tekið á móti þeim.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.