Fyrstu tvö bindi Dalalífs endurútgefin hjá Forlaginu
Fyrstu tvö bindi Dalalífs hafa nú verðið endurútgefin hjá Forlaginu, á 70 ára útgáfuafmæli skáldkonunnar. Er þetta í fjórða sinn sem þetta höfuðverk Guðrúnar kemur út. Fyrsta bindið skipar nú fjórða sætið a metsölulista Eymundsson en annað bindið sjötta sætið.
Eftirfarandi skrifar langömmubarn Guðrúnar, Marín Guðrún Hrafnsdóttir, á heimasíðu Forlagsins:
„Það hefur mér fundist skrýtnast, að um leið og þeim fækkar, sem þekkja þennan heim, sem ég skrifa um, þá hef ég spurnir af ungu fólki, sem nennir að lesa sögurnar mínar. Það finnst mér eiginlega meira virði, en þótt einhverjir stytti sér stundir við kerlingabókahjal og kaffibolla.“
Svo segir skáldkonan Guðrún frá Lundi í afmælisviðtali við Morgunblaðið árið 1971. Guðrún er þá 84 ára gömul og búin að senda frá sér 27 bindi skáldverka. Fyrsta bók hennar kom út þegar hún var 59 ára. Enginn þekkti höfundinn. Íbúar Sauðárkróks vissu ekki að hægláta feimna konan á Freyjugötunni sæti við skriftir og vinsældir hennar næstu árin komu öllum í opna skjöldu. Hún setti hvert sölu- og útlánsmetið á 6. og 7. áratugnum og var sá íslenski rithöfundur sem var mest lesinn.
Guðrún fæddist þann 3. júní 1887 og ólst upp í hópi ellefu systkina. Á heimilinu var ágætur bókakostur sem vafalítið hefur vegið uppá móti stuttri skólagöngu. Hún byrjaði að skrifa sögur strax um fermingu en brenndi öll skrif sín þegar hún gifti sig. Hún hélt þó eftir nokkrum blöðum úr Dalalífi og sagði í viðtölum að sú saga hefði lifað með sér lengi. Guðrún og maður hennar, Jón Þorfinnsson, stunduðu búskap til 1939 en fluttu þá til Sauðárkróks. Þar gafst Guðrúnu loks tími til að skrifa.
Guðrún og Jón eignuðust þrjú börn. Guðrún lést árið 1975, 88 ára gömul og var jarðsett í Sauðárkrókskirkjugarði.
Fyrsta bindi Dalalífs, Æskuleikir og ástir, hefst á þessum orðum: „Engum sem farið hefur um Hrútadal dylst það að hann er með fegurstu sveitum landsins.“ Þannig hefst Dalalíf, stórvirki Guðrúnar Árnadóttur frá Lundi. Hreppstjórinn Jakob Jónsson býr á stórbýlinu Nautaflötum í Hrútadal, ókvæntur og barnlaus. Á miðjum aldri sækir hann sér óvænt brúði í næsta hérað, Lísibetu Helgadóttur. Jón, sonur þeirra, verður sjálfskipaður foringi barnanna af næstu bæjum og þegar þau vaxa úr grasi álítur leiksystirin Þóra í Hvammi sig heitbundna honum. En Lísibet hefur annað konuefni í huga handa syni sínum.
-
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.