Fylgst með vinnslu Iceprotein á þorskpróteinum í fjórða þætti Fyrirmyndarfrumkvöðla

Í fjórða þætti Fyrirmyndarfrumkvöðla heimsækjum við fyrirtækið Iceprótein á Sauðárkróki. Ljósm./KSE
Í fjórða þætti Fyrirmyndarfrumkvöðla heimsækjum við fyrirtækið Iceprótein á Sauðárkróki. Ljósm./KSE

Í fjórða þætti Fyrirmyndarfrumkvöðla heimsækjum við fyrirtækið Iceprotein í Verinu á Sauðárkróki. Rætt er við Hólmfríði Sveinsdóttur framkvæmdastjóra og fylgst með vinnsluferlinu þegar þorskprótein eru unnin úr afskurði frá Fisk Seafood.

Hjá Iceprotein er stefnt að því að hylkja próteinduftið og markaðssetja sem fæðubótarefni. Er áformað að þrjár tegundir verði komnar á markað í byrjun næsta árs. Hjá fyrirtækinu starfa sex háskólamenntaðir starfsmenn og hefur fyrirtækinu svo sannarlega vaxið fiskur um hrygg síðan það var stofnað árið 2005.

Í þættinum segir Hólmfríður frá vinnsluferlinu og helstu verkefnum fyrirtækisins, góðum tengslum þess við athafnalífið á hafnarsvæðinu og því hversu mikilvægt það er fyrir ungt, háskólamenntað fólk að geta snúið heim á námi loknu.

Sem fyrr segir er þetta annar þátturinn af sex, þar sem fyrirtæki heimsótt og farið er yfir starfsemina, allt frá hugmynd til viðskiptatækifæris. Í lokaþættinum koma viðmælendur allra sex fyrirtækjanna saman, ásamt þriggja manna ráðgjafanefnd, og ræða um frumkvöðlastarf.

Fyrirmyndarfrumkvöðlar er samstarfsverkefni Feykis og Skottu kvikmyndafjelags. Þáttagerðin er í höndum Árna Gunnarsson kvikmyndagerðarmanns, Berglindar Þorsteinsdóttur, ritstjóra Feykis og Kristínar Einarsdóttur, blaðamanns hjá Feyki. Þáttastjórnendur eru Berglind og Kristín en um upptökur og eftirvinnslu sér Árni Gunnarsson.

Í fyrsta þætti voru Ásdís Sigurjónsdóttir, Einar E. Einarsson og Sólborg Una Pálsdóttir á Syðra-Skörðugili í Skagafirði. Þau standa að framleiðslu smyrsla og leðurfeiti úr minkafitu undir vörumerkinu Gandur.

 

Í öðrum þætti Fyrirmyndarfrumkvöðla fengum við að kynnast Lilju Gunnlaugsdóttur, sem rekur handverksfyrirtækið Skrautmen, og líta inn í vinnustofu hennar að Áshildarholti í Skagafirði.

 

Í þriðja þætti Fyrirmyndarfrumkvöðla heimsóttum við Jóhannes Gunnar Þorsteinsson tölvuleikja- og hljóðhönnuð og sambýliskonu hans, Arnfríði Hönnu Hreinsdóttur, á Kollafossi í Miðfirði. Í Kollafossi reka þau leikjamiðstöð, þar sem þau bjóða öðrum tölvuleikjahönnuðum í sveitasæluna, svo þeir geti einbeitt sér að vinnu sinni í friði og ró.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir