Fullkominn farsi í höndum Leikfélags Sauðarkróks
Leikritið Fullkomið brúðkaup hefur verið sett upp hjá hundruðum leikhúsa um allan heim, eins og fram kemur á heimasíðu höfundar, Robins Hawdon. Fullkomið brúðkaup er fullkominn farsi, eða eins og í leikskrá er haft eftir höfundinum: „Góður farsi þarf m.a. að bjóða upp á hraða, fullt af misskilningi, fyndni, framhjáhöld, ást og hurðaskelli.“ Auk þess, þar sem þetta er erlent leikrit, þarf þessi farsi að bjóða upp á mjög færan þýðanda, húmorista sem kann að draga fram kómiska hlið af hverju einasta orði íslenskrar orðabókarinnar en sá reynslubolti er enginn annar en Örn Árnason. Ég held að textagerð farsa sé ennþá flóknara og meira krefjandi en að semja handrit fyrir drama, en það má vera rangt. En vindum okkur að brúðkaupinu, förum okkur í Bifröst á Sauðárkróki í boði Leikfélags Sauðárkróks og bíðum spennt.
Áður en fyrsti leikarinn stígur á stokk heyrist hljóð í aðeins eina eða tvær mínútur: Karlmenn að skemmta sér, náttúruöfl eins og elding og þrumur, loks fuglakvak. Þótt stutt væri fannst mér samt að hljóðin segðu heila sögu og mun ég víkja að þessari tilfinningu seinna meir.
Leikmyndin stendur alla sýninguna í gegn óbreytt og er einföld en útpæld. Hún sýnir hótelherbergi og gang. Fremst á sviði sitt hvorumegin er gjöfum fallega staflað í misstórum gjafapökkum en í minnsta kosti einum þeirra grunar mig að sé Kitchen Aid hrærivél, enda er það vitað mál að slík vél er ómissandi, enda getur hún haldið hjónabandi saman í öngþveiti. Af pakkafjöldanum að dæma mun allt stefna í lífslanga hamingju, þarna er engan skort að sjá. Leikmyndin bendir einnig til þess að brúðkaupsundirbúningurinn sé langt kominn og á réttri leið, væri ekki fyrir vodkaflösku fyrir framan Queensize-rúm í mikilli óreiðu.
Hljóðin þagna og leikurinn hefst. Það tekur enga stund og fyrra vandamál Bjarna (leikinn af Árna Jónssyni) kemur í ljós: Hann vaknar á sjálfum brúðkaupsdeginum í rúmi brúðarsvítunnar við hliðina á gullfallegri en bláókunnugri stúlku að nafni Nína (leikin af Sögu Sjöfn Ragnarsdóttur). Hinn helmingur vandamáls Árna, sem seinna mun breytast í hans hamingju, kemur í ljós í lok leikritsins en það vitum við ekki enn. Og hefst svo bráður hasar. Inn og út um hurðir, menn að fela sig eða hóta með klósettbursta eða hnífi, nafnarugl og misskilningur í bunum, misheppnaðar reddingar en síðast en ekki síst yfirvofandi brúðkaup Rakelar (leikin af Oddnýju Rögnu Pálmadóttur) og Bjarna, nema hvað allur undirbúningur er í skralli vegna framhjáhalds Bjarna sem Rakel má alls ekki frétta af, auðvitað ekki, síst á þessum degi.
Svo kemur hlé og tónlist sem spiluð var á meðan leikhúsgestirnir fengu sér sæti, endurtekur sig. Mér fannst hún einhvern vegin vera frá Balkanlöndum, enda ekki vel að mér í heimstónlistinni, en hið rétta kom í ljós í blálok leikritsins en verður ekki gefið upp hér. Þegar kom að hléinu vissi ég ekki lengur hvernig snéri á mér hausinn, ég vissi reyndar mun minna í hvað mundi stefna en allir óvitarnir á sviðinu samanlagt, allt var í rugli en ég hafði skemmt mér drottningarlega. Það er viljandi gert að leyna áhorfendur framvindu mála og leyndamál sem eftir er að opinbera. Séu leyndamál þegar þekkt í hléinu væri leikformið ekki farsi, heldur drama og allar áherslur eftir hlé munu stefna að því hvernig hetjan stendur sig og gengur frá sínu máli, sem felur oftast eða nær alltaf í sér ranga ákvörðun sem ekki er hægt að forðast vegna persónutengsla og/eða samvisku og mun sú ákvörðun draga hetjuna til falls og jafnvel til dauða. En ekki hér, þetta er farsi. Ekki svo að skilja að persónur í þessum farsa séu samviskulausar, alls ekki, þetta er heiðarlegt fólk, allavega innst inni ... en í farsa gengur allt út á það að í lokin eru allir lifandi og glaðir eða svo gott sem.
Þið fyrirgefið mér, lesendur góðir, að ég fer ekki nánar í söguþráðinn. Farsinn sem annars er ódrepandi leikform deyr þó, verði hann sagður í prósa. En ég get lofað ykkur afar skemmtilegri framvindu leikritsins með óvæntum enda, ómældum hlátri og frábærri skemmtun.
Aðeins sex leikarar standa fyrir sýninguna og er mjög mikið lagt á þá alla, öll hlutverk eru stór og spanna mest allan tilfinningaskalann eins og í flestum góðum leikritum. Það er krefjandi. Hlutverk hergbergisþernunnar Nönnu er í höndum Elvu Bjarkar Guðmundsdóttur og stendur hún sig frábærlega eins og allir hinir leikararnir. Þernan er grunuð um að vera gleðikona, ástkona Bjarna sem og ástkona Trausta svaramanns en sá síðarnefndi er leikinn af Guðbrandi J. Guðbrandssyni. Trausti er frá upphafi til enda í vandræðum en hefur engan tíma til að leysa vandamál sín eða annarra fyrir ruglingi. En þar kemur Rakel brúðurinn til hjálpar en sú veit hvað hún vill. Hún leitar nánast allt verkið í gegn að sannleikanum og kemst að honum þegar kirkjuklukkurnar byrja að hringja en hún er snögg að skipta um gír. Brúðkaup skal það vera! Hlutverk Kristjáns Arnar Kristjánssonar sem faðir brúðarinnar sem í frumtexta höfundar er Daphne, móðir brúðarinnar. Faðirinn Þröstur kemur ekki inn fyrr en eftir hlé og á eiginlega ekki að gera neitt annað en að laga pilsfaldinn brúðarkjólsins þegar atburðarrásin rífur hann með sér eins og jökulfljót.
Og þá er ég komin aftur að upphafs hljóðunum. Glaðir karlar, náttúruöfl og blítt fuglakvak. Þetta er leikritið í hnotskurn. Afleiðingar gleðskaps sem kallar fram náttúruöfl eins og ást, vonbrigði, ástarsorg og afbrýðissemi, allt skrifað með hástöfum, en endar svo í mildum tónum.
Mig langar að segja aðeins frá annarri leikhúsferð um daginn. Leikhópur Borgarholtsskóla fyrir sunnan sýndi Himnaríkið eftir Árna Ibsen á Hvammstanga. Sex hlutverk, farsi, ást og framhjáhöld, misskilningur og hurðaskellir, örvænting og skemmtilegheit, frábærlega vel gert hjá krökkunum. Þetta endaði allt í tárum eftir ákaft lofaklapp í lokin enda tveir ungu leikaranna heimafólk. Á Króknum var einnig ákaflega míkið klappað, þó engin tár. Tár eða engin tár - svo virðist sem öll viljum við sjá fólkið okkar blómstra.
Takk fyrir mig! Ég hafði gaman af frábærum leik, sniðugri uppsetningu Guðbrands Ægis Ásbjörnssonar, ofsalega fallegum One-size-brúðarkjól en einnig af hinum leikhúsgestunum sem hlógu allir á réttum stað, það er að segja nánast óslitið.
Gudrun M. H. Kloes
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.