Fjölskylduhátíð harmónikuunnenda í Skagafirði

Það verður kátt á hjalla hjá harmónikuunnendum í Steinsstöðum um aðra helgi. Mynd: harmoniku-unnendur.com.
Það verður kátt á hjalla hjá harmónikuunnendum í Steinsstöðum um aðra helgi. Mynd: harmoniku-unnendur.com.

Fjölskylduhátíð harmonikuunnenda í Skagafirði hefur verið haldin um árabil, fyrst í Húnaveri þar sem félagið var lengi í samvinnu við Húnvetninga. Nú heldur Félag harmonikkuunnenda í Skagafirði hana öðru sinni á Steinsstöðum í Lýtingsstaðahreppi hinum forna, helgina 24.-26. júní næstkomandi en þar er aðstaða fyrir gesti hin glæsilegasta.

Dagskráin verður með hefðbundnu sniði, gestir mæta á föstudagskvöldinu og er þá samvera spjall og fótamennt undir seiðandi harmonikkumúsík frá 21:00-24:00. Á laugardaginn hefst skemmtun kl. 14:00. Koma þar fram bæði ungir og aðeins eldri skemmtikraftar sem skemmta með tónum og tali.

„Undir kvöld er kveikt undir grillunum og er öllum frjálst að grilla sitt kjöt eða hvað það er sem á að matreiða. Á laugardagskvöldinu er svo dynjandi harmonikkuball að hætti Skagfirðinga kl:21-01:00. Sérstakir gestir okkar núna eru félagar í Harmonikkufélagi Rangæinga og Harmonikkufélagi Selfyssinga,“ segir í tilkynningu frá félaginu.

Nánari upplýsingar eru í auglýsingum, m.a. í Sjónhorninu og í viðburðaskrá á Feykir.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir