Fjölskyldufjör í Fljótunum
Á Sólgörðum í Fljótum er oftast líf og fjör en þessa dagana er þó óvenju glatt á hjalla. Þar er nú risinn foráta hoppkastali sem hægt verður að hoppa í fram á laugardagseftirmiðdag.
Það er ferðaþjónustan á Sólgörðum sem stendur fyrir því að fá kastalann á staðinn. Á Sólgörðum er yndislegt umhverfi og mikil paradís fyrir barnafólk. Óhætt er að segja að kastalinn hafi vakið mikla lukku og umferðin verið talsverð enda brakandi blíða í Fljótunum. Það er svo sannarlega ekki amalegt að renna í Fljótin, skella sér í hopp og sund á Sólgörðum og fá sér vöfflu eða ís á eftir. Fyrir þá sem hafa gaman af að skreppa á hestbak má geta þess að í Langhúsum, rétt neðan við Sólgarða, er rekin hestaleiga og þá verður enginn svikinn af að líta við í Húsdýragarðinum á Brúnastöðum.
Það verður opið á Sólgörðum til kl. 22 í kvöld en á morgun og laugardaginn verður opið milli kl. 12 og 18.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.