Fjallavatnið rétt feðrað

Steinn Kárason söng stutta útgáfu af hinu margrómaða Fjallavatni. við fögnuð viðstaddra. Ljósm./skjáskot úr myndskeiði.
Steinn Kárason söng stutta útgáfu af hinu margrómaða Fjallavatni. við fögnuð viðstaddra. Ljósm./skjáskot úr myndskeiði.

Króksarinn og garðyrkjufræðingurinn góðkunni Steinn Kárason samdi Fjallavatnið, lag og ljóð sem um langt árabil hefur verið baráttusöngur knattspyrnudeildar Tindastóls og notið hefur vinsælda meðal garðyrkjufræðinga. Þetta kom fram hjá Steini í spjalli í morgunkaffi í Bakaríi Sauðárkróks.

Nokkrir fastagestir sátu við spjall yfir rjúkandi kaffibolla laugardaginn 10. október þegar Frímann Guðbrandsson skaut því inn í umræðurnar að Steinn, sem þarna sat væri maðurinn sem samdi Fjallavatnið. Þetta voru nýjar upplýsingar fyrir suma kaffigesti s.s. Ómar Braga Stefánsson og Maríu Björk Ingvadóttur, en meðal annarra kaffigesta voru Aadnegard bræðurnir Knútur og Sigurður, Bjössi á Stöðinni, Frímann og eiginkonur þeirra.

Um tilurð lags og texta urðu fjörugar umræður. Lagið samdi Steinn á heimili foreldra sinna Kára Steinssonar og Distu á Hólavegi 23, líklega haustið 1970, frekar en vorið 1971, en þá var höfundurinn 16 ára. „Á þessum tíma samdi ég fjölda laga,“ segir Steinn, meðal annars jólasálminn Helga himneska stjarna.

„Fjallavatnið, bæði lag og ljóð urðu til samtímis á mjög stuttum tíma. Þegar lag og ljóð var fullgert hjá mér kom í heimsókn til mín æskufélaginn, Nonni, - Jón sonur Bjössa rafvirkja og Rúnu. Við félagarnir sungum lagið vandlega til,“ segir Steinn, „ég með minni alkunnu englarödd og Jón með sinni sérstöku rödd sem gaf laginu einstakan unaðs og gleðiblæ“.

Fjallavatnið hefur náð miklu flugi og hefur ævinlega verið sungið með miklum gleðibrag, aldrei sérlega hátíðlega. Knattspyrnukappar í Tindastól hófu lagið í öndvegi sem sinn baráttusöng, reyndar bjagað og rangt hefur verið farið með ljóðið. Fjallavatnið varð feykivinsælt meðal garðyrkjufræðinga á Garðyrkjuskólanum og er sungið við mikinn fögnuð þegar tækifæri gefst í þeirra hópi. Fjallavatnið er oftast sungið tvisvar til fjórum sinnum í röð en stundum í hálftíma eða lengur eftir atvikum.

Í lokin stóð Steinn svo upp og söng við fögnuð viðstaddra, stutta útgáfu af hinu margrómaða Fjallavatni. Lagið er því hér með rétt feðrað og þeim misskilningi eytt að einhver annar en hinn góðkunni Steinn Kárason hafi samið Fjallavatnið.

Hér er upptaka Maríu Bjarkar Ingvadóttur af Fjallavatninu í Sauðárkróksbakaríi á laugardaginn.

 

Hér má heyra Fjallavatnið sungið af Bjargráðabandinu. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir