Fallegt útsýni og fjölbreytt fuglalíf í Jónsmessugöngu á Hofsósi
Jónsmessuhátíðin á Hofsósi hefst á morgun og eru íbúar nú á fullu að skreyta og gera sig klára til að taka á móti gestum. Fyrsti liðurinn á dagskrá hátíðarinnar er Jónsmessugangan sem ætíð hefur notið mikilla vinsælda. Gönguleiðin að þessu sinni er frá Kjaftamel í Stafshólslandi, um Axlarveg sem er gamall vegur og reiðleið, yfir í Tumabrekkuland og meðfram Miðhúsagerði uns komið er niður á Siglufjarðarveg rétt norðan við Miðhús í Óslandshlíð. Meðal þess sem fyrir augun ber er malarhóllinn Hastur þaðan sem er mjög fallegt útsýni. Segir sagan að þaðan hafi Grettir Ásmundsson borið stóra steininn, eða Grettistakið, sem stendur í Grafaránni, rétt við við Grafarós, og blasir við frá þjóðveginum. Sigrún Fossberg, fararstjóri í göngunni, segir að gangan sé létt, meira og minna niður í móti þar sem fólki gefist færi á að njóta fallegrar náttúru með miklu útsýni og fjölbreyttu fuglalífi. Jónsmessugangan hefst klukkan 18:00 og verður fólki ekið á upphafsreit með rútu.
Kjötsúpan, sem er mölluð að hætti meðlima í Félagi eldri borgara á Hofsósi, hefur alltaf dregið til sín marga gesti og er ekki að undra því hún þykir sérlega ljúffeng. Þá tekur við kvöldvaka en á dagskrá hennar kennir ýmissa grasa, þar má nefna söng, píanóleik, pistil Rúnars Gíslasonar Einars. og Guðrúnar Pálma. Kynnar á kvöldvökunni verða tveir drengir, þeir Biggi og Siggi, sem eiga ættir að rekja til Mannskaðahóls og ættu því að kunna að koma orðum að hlutunum.
Dagskrá laugardagsins hefst með knattspyrnumóti kl. 10:30 og kl. 11:00 hefst myndasýning í Höfðaborg. Meðal annarra atriða sem eru á dagskrá laugardagsins er hópreið hestamanna um þorpið, dráttarvélaakstur, heimsókn Fornbílaklúbbs Skagafjarðar, tjaldmarkaður og myndlistasýning að ógleymdri barnadagskránni sem er metnaðarfull að vanda og lýkur með fjölskyldudansleik í Höfðaborg. Um kvöldið verður svo varðeldur og brekkusöngur í Kvosinni. Bæði kvöldin verður svo dansað í Höfðaborg.
Dagskrá hátíðarinnar má nálgast hér.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.