Færðu Ívari Elí afrakstur áheitahlaups
Í gær afhentu nemendur í 7. og 8. bekk Varmahlíðarskóla Ívari Elí Sigurjónssyni og föður hans, Sigurjóni Leifssyni afrakstur áheitasöfnunar sinnar. Síðustu vikur hafa þessir 32 krakkar safnað 1.113.829 krónum með áheitahlaupi sem þau hlupu síðasta vetrardag.
Eins og Feykir hefur greint frá er Ívar Elí fimm ára drengur á Sauðárkróki sem hefur í nærri tvö ár barist við flogaveiki. Köst hans nema orðið tugum á dag þegar verst lætur og hann hefur svarað lyfjagjöf illa. Nú er svo komið að íslenskir læknar eru ráðalausir og ákveðið hefur verið að senda hann til Boston í til rannsóknar og síðar aðgerðar og er vonast til að geti verið í maí.
Á fésbókarsíðu skólans eru öllum þeim sem tóku krökkunum opnum örmum og styrktu þetta verðuga málefni færðar innilegar þakkir. „Það er gott að búa í litlu samfélagi þar sem börnin okkar læra af fyrstu hendi samkennd með náunganum og að þeirra framtak skipti máli,“ segir í tilkynningu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.