Engin atvinnulífssýning í Sæluvikunni

Frá sýningunni Lífsins gæði og gleði í íþróttahúsinu á Króknum vorið 2014. MYND: ÓAB
Frá sýningunni Lífsins gæði og gleði í íþróttahúsinu á Króknum vorið 2014. MYND: ÓAB

Það styttist óðfluga í Sæluviku sem að þessu sinni kemur í beinu framhaldi af frídagasúpu aprílmánaðar; páskarnir eru 17.-18. apríl, sumardagurinn fyrsti 21. og setning Sæluvikunnar sunnudaginn 24. apríl. Skagfirðingar hafa verið nokkuð duglegir að halda atvinnu-, mannlífs- og menningarhátíðir, nú síðast fyrir fjórum árum en sú fékk nafnið Skagafjörður – heimili norðursins. Til stóð að endurtaka leikinn nú í vor en samkvæmt heimildum Feykis verður hátíðin ekki í lok Sæluviku en verið er að skoða hvort hún verði í haust eða frestist fram á næsta vor.

Að sögn Hebu Guðmundsdóttur, verkefnastjóra hjá Svf. Skagafirði, var megin ástæðan fyrir því að ekki þótti ráðlegt að setja upp sýninguna seinni helgi Sæluvikunnar sú að svo gæti farið að lið Tindastóls eigi heimaleik í úrslitakeppninni í körfubolta á sama tíma og þar verður dagsetningum ekki hnikað til nema í neyðartilfellum. Þá var skoðað að fresta sýningunni um viku en þá er aðeins vika í sveitarstjórnarkosningar sem fara fram tveimur vikum fyrr en vanalega þannig að sú tímasetning hentaði ekki.

Feykir spurði Hebu hvort það hafi verið skoðað hjá fyrirtækjum og stofnunum hvort áhugi væri fyrir að setja upp atvinnulífssýningu. „Já, það var stemning þegar við könnuðum áhugann í byrjun þessa árs. Held að allir séu tilbúnir í að gera eitthvað skemmtilegt aftur,“ sagði Heba og vísar í tveggja ára Covid-tímabil þar sem samvera hefur verið í lágmarki og tækifærin af skornum skammti til að lyfta sér upp í gleði, leik og söng.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir