Ó, helga nótt í sérflokki
Í síðustu netkönnun Feykis voru talin til nokkur mis sígild jólalög en spurt var hvert laganna kæmi þeim sem svaraði mest í jólagírinn. Það er skemmst frá því að segja að það var jólasálmurinn Ó helga nótt sem vann netkosninguna með miklum yfirburðum, hlaut 30% atkvæða en hægt var að velja á milli níu svara.
Það var franska tónskáldið Adolphe Adam sem setti lagið saman árið 1847 við ljóð Placide Cappeau, Minuit, chrétiens (e. Midnight Christians). Átta árum síðar hafði John Sullivan Dwight samið enskan texta við lagið, O Holy Night. Sigurður Björnsson þýddi síðan textann árið 1947 og hét þá Nóttin helga. Textinn fjallar um fæðingu Jesú Krists ef það hefur farið framhjá einhverjum.
Margir snillingar hafa sungið sálminn í gegnum árin. Má þar sem dæmi nefna amerísku gospelsöngkonuna Mahalia Jackson og svíann sígilda, Jussi Björling. Hér á klakanum hefur útsetning Egils Ólafssonar Stuðmanns þótt afar falleg en í seinni tíð hefur útsetning Frostrósa með Margréti Eir í fararbroddi sætt miklum vinsældum.
Frostrósirnar hittu fjölmarga Íslendinga í hjartastað og það er lag þeirra, Dansaðu vindur, sem Eivör syngur, sem hafnaði í öðru sæti í könnuninni með 12% atkvæða. Sniglabandið, með ungsöngvarann Stefán Hilmarsson vongóðan, varð í þriðja sæti með Jólahjól.
Raunar merktu 27% þátttakenda við möguleikann sem gaf ekki mikið fyrir alla kosti könnunarinnar og söknuðu þess að talin væru til lög með Bjögga Halldórs, Stebba Hilmars, Siggu Beinteins, Helga Björns og allra hinna. En þetta er eins og þegar Lars og Heimir velja landsliðið í fótbolta – það komast ekki allir í liðið!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.