„Eins og að stíga inn í gamla tímann“

Sigrún Benediktsdóttir og Gísli Einarsson. Gísli segist hafa heimsótt frænda sinn á hverju ári, með smá hléi á meðan þau hjónin bjuggu erlendis. Hann lýsir Birni sem víðlesnum og ákaflega fróðum manni. Þar sem Björn var barnlaus erfði Gísli húsið að Suðurgötu 14. „Nú fyndist okkur mjög gaman, fyrst að ég er hans nánasti ættingi og endaði með að erfa hann, að gera þetta hús þannig að það sé sómi af því hérna í götunni - gamalt fínt hús, fallegt og notalegt er að vera í.“ Ljósm./BÞ
Sigrún Benediktsdóttir og Gísli Einarsson. Gísli segist hafa heimsótt frænda sinn á hverju ári, með smá hléi á meðan þau hjónin bjuggu erlendis. Hann lýsir Birni sem víðlesnum og ákaflega fróðum manni. Þar sem Björn var barnlaus erfði Gísli húsið að Suðurgötu 14. „Nú fyndist okkur mjög gaman, fyrst að ég er hans nánasti ættingi og endaði með að erfa hann, að gera þetta hús þannig að það sé sómi af því hérna í götunni - gamalt fínt hús, fallegt og notalegt er að vera í.“ Ljósm./BÞ

Við Suðurgötu á Sauðárkróki stendur Ártún, 125 ára gamalt hús. Það hefur þó ekki alla tíð staðið á sama stað heldur var það flutt á stokkum utan af Aðalgötu árið 1919, þangað sem það stendur nú. Húsið hefur lengst af verið í eigu sömu fjölskyldunnar, nú síðast Björns Ásgrímssonar. Þegar hann lést, 94 ára að aldri þann 29. júlí sl., eignaðist bróðursonur hans Gísli Einarsson húsið.

Það er líkt og tíminn hafi staðið í stað í Ártúni, ótal gamlir húsmunir hafa staðið þar óhreyfðir svo áratugum skiptir. Til að mynda héngu inní skáp föt kvenna sem hurfu á braut fyrir rúmri hálfri öld, gömul fótstigin saumavél með tvinnakeflin þrædd og tilbúin til notkunar beið þess að aftur yrði hafist handa við saumaskapinn og koppar stóðu enn til reiðu undir rúmum á efri hæð hússins, þar sem enginn hefur sofið í áraraðir.

Gísli segist eiga margar góðar minningar í þessu húsi og af Króknum en þar varði hann sumrum sínum til tólf ára aldurs. „Ég var alltaf hér á sumrin sem strákur og vaknaði alltaf snemma á morgnanna við hanagal. Við sváfum hérna uppi, öll í sama rýminu, við afi, Björn, Jóhanna og ég. Ég svaf í rúminu hennar ömmu. Fyrir vestan húsið var fjós, í horninu var hænsnakofi, 30 til 40 rollur tilheyrðu búinu og tveir til fjórir hestar, síðan var kýr og alltaf kálfur - þetta var eins og pínulítið sveitabú. Það var heyskapur og svo áttum við trillu,“ rifjar Gísli upp.

Blaðamaður Feykis bankaði upp á einn fagran haustdag og spjallaði við Gísla og Sigrúnu Benediktsdóttur, eiginkonu hans, og Gísli rifjaði upp góða sumardaga þegar hann dvaldi sem barn hjá afa sínum og frændfólki að Suðurgötu 14. Viðtalið við Gísla og Sigrúnu má lesa í Feyki vikunnar en þar segja þau einnig frá því að sé það gerlegt myndu gjarnan vilja gera húsið upp svo að sómi verði af því í götunni.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir