Draugagangur í Kvennaskólanum
Fimmta kynningarmyndskeiðið um textíl á Norðurlandi vestra sem Þekkingarsetrið á Blönduósi hefur framleitt í samstarfi við Textílsetrið á Blönduósi er komið út. Í myndskeiðinu er fjallað um Kvennaskólann og er það Aðalbjörg Ingvarsdóttir, fyrrum skólastjóri skólans sem sér um kynninguna.
Draugagang ber á góma í myndskeiðinu og þegar Aðalbjörg er spurð að því hvort það sé reimt í húsinu svarar hún því til að þar séu bara góðir andar. Sagt er frá þessu á vefnum huni.is.
Alls voru átta myndskeið tekin upp í desember 2015 og nú hafa fimm þeirra verið birt. Þau fjalla um textíl og textíltengd starfsemi á Norðurlandi vestra á léttan og skemmtilegan hátt.
Morgan Rhys Tams, kvikmyndamaður, og Melody Woodnut, listamaður og fyrrverandi forstöðumaður Nes listamiðstöðvarinnar á Skagaströnd, framkvæmdu verkefnið með aðstoð listamanna frá Skagaströnd og úr textíllistamiðstöðinni í Kvennaskólanum á Blönduósi, ásamt íbúum svæðisins.
Myndskeiðin skiptist í nokkra þætti og birtast á Vimeo og Facebook síðum Þekkingarsetursins og Textílsetursins.
Myndskeiðin eiga að minna á textílhefðir á Norðurlandi vestra og vekja athygli á að hér er frábær staður fyrir textíl- og listatengda starfsemi.
Fimmta og nýjasta myndskeiðið má sjá hér.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.