Bryggjugerð í Drangey
Síðustu daga hefur verið unnið við að endurgera steypta bryggju við Drangey en í dag var varðskip Landhelgisgæslunnar, Þór, mætt til að aðstoða, enda veður hið hagstæðasta á Skagafirði og sumarið líklega loksins komið. Í vetur fengu Drangeyjarferðir, sem sigla einmitt með ferðalanga út í Drangey, 20 milljón króna styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að koma upp bryggju á ný í eynni en sú gamla eyðilagðist í veðurofsum veturinn 2019-2020.
Í umsögn með styrknum frá í vetur segir: Verkið er flókið þar sem það er verið að steypa í sjó. Búið er að koma fyrir steyputeinum og keðjum til að festa saman stóru steinana í fjörunni og þannig búið að gera allt klárt til að ljúka þessum þætti verksins. Verkefnið er að styrkja flotbryggjuna sjálfa og setja í hana hólf þannig að hún fljóti betur og stórauka þannig öryggi og aðgengi ferðamanna á þessum þekkta ferðamannastað.
Eins og sjá má á myndunum sem hér fylgja, sem Þorgrímur Ómar Unason tók, þá var siglt með steypu frá Sauðárkróki út í Drangey. Þær myndir eru frá 12. maí en myndirnar af varðskipinu eru frá því í dag.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.