Bragi og Einar voru pínu stressaðir fyrir fyrsta leikinn
Þann 22. ágúst síðastliðinn var knattspyrnuleikur á Sauðárkróksvelli. Þá mættu Tindastólsmenn liði Ægis úr Þorlákshöfn og því miður voru úrslitin ekki á þann veg sem heimamenn óskuðu. Þetta reyndist síðasti leikur Stólanna undir stjórn Hauks Skúlasonar þjálfara en þessi síðasti leikur hans verður örugglega lengi minnisstæður tveimur bráðefnilegum pjökkum sem voru valdir í byrjunarlið í meistaraflokki í fyrsta sinn. Þetta voru þeir Bragi Skúlason og Einar Ísfjörð Sigurpálsson en þeir eru báðir fæddir árið 2005 og því 16 ára á árinu. Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir strákana.
Einar Ísfjörð er sonur Stínu Magg og Sigga Dodda og honum var skellt í markið þar sem hann stóð vaktina allan leikinn í 1-3 tapi. „Auðvitað kom smá fiðringur í magann en aðallega varð ég bara spenntur fyrir að fá tækifæri,“ segir hann þegar Feykir spyr hvernig hann hafi brugðist við þegar honum var tilkynnt að hann ætti að byrja leikinn gegn Ægi.
Hvernig fannst þér frammistaða þín? „Maður er að sjálfsögðu aldrei sáttur við tap. Margt sem ég hefði getað gert betur en það þýðir lítið að svekkja sig á því núna. Ég er þokkalega sáttur með fyrsta heila leikinn í meistaraflokki.“
Hvers vegna valdirðu að gerast markvörður? „Ég hef alltaf frá því að ég byrjaði í fótbolta verið í marki. Ástæðan er sennilega pínu brosleg. Ég hafði lítinn áhuga á íþróttum og var ekkert sérstaklega góður að sparka í bolta. Það tókst best að halda mér inni í leiknum þegar pabbi stóð fyrir aftan markið og lét vita þegar boltinn nálgaðist. Eftir það hef ég bara haldið mig við markið en pabbi stendur ekki lengur fyrir aftan,“ segir Einar að lokum.
Kominn á ferðina eftir ökklabrot
Bragi viðurkennir að það hafi komið sér frekar á óvart þegar Haukur tók hann til hliðar og tilkynnti honum að hann ætti að byrja inn á í þessum leik. „Ég varð frekar stressaður til að byrja með en liðsfélagar mínir hjálpuðu mér með stressið og náðu mér niður fyrir leik,“ segir Bragi. Hann er sonur Lilju Magneu leikskólakennar og Skúla Braga en svo skemmtilega vildi til að bróðir Braga, Hólmar Daði, var einnig í liði Stólanna þetta kvöld og spilaði sinn hundraðasta leik þegar litli bróðir spilaði leik númer eitt.
Hvernig fannst þér frammistaðan? „Frammistaðan í heild sinni frá liðinu var ekki sú besta í sumar. Við mættum ekki nógu vel gíraðir og komumst ekki á bragðið. Ég var hins vegar ágætlega sáttur með mína frammistöðu og mér fannst ég hafa lagt mig allan fram í þann tíma sem ég fékk,“ segir Bragi en honum var skipt út af eftir klukkutíma leik.
Nú er ekki langt síðan þú brotnaðir á æfingu. Hvað kom fyrir og hvernig gekk að fá sig góðan af meiðslunum? „Já, það er að verða komið eitt ár síðan það óhapp átti sér stað. Ég var á 3. flokks æfingu þann 10. september 2020 þegar það kom sending meðfram grasinu sem ég ætlaði að komast í veg fyrir með því að renna mér fyrir boltann. Ég fer til þess að renna mér og þá festast takkarnir á hægri fæti í gervigrasvellinum og hraðinn sem ég var á þegar þetta gerðist varð til þess að ég hélt áfram að renna og rann yfir ökklann á mér. Þá heyrði ég brak og brot í ökklanum og þar hékk hann í 90 gráðu vinkli. Æfingin var stoppuð og hringt á sjúkrabíl sem tók sinn tíma í að komast á völlinn.“
Bragi var síðan fluttur upp á sjúkrahús þar sem ökklinn var myndaður. Þá kom í ljós að það varð að senda kappann umsvifalaust í aðgerð á Akureyri. „Þegar ég kom til Akureyrar kom í ljós að það voru engir lausir bæklunarlæknar fyrr en morguninn eftir. Svo ég var settur í gifs og látinn þjást heila nótt þar til ég fengi að fara í aðgerð. Morguninn eftir var mér svo tilkynnt að hingað væri kominn einn færasti bæklunarlæknir landsins sem ætti að sjá um aðgerðina. Aðgerðin heppnaðist vel og var ég útskrifaður af spítalanum tveimur dögum eftir að brotið átti sér stað.“
Bragi segir að í framhaldinu hafi tekið við langt og strangt endurhæfingartímabil. „Stuttlega eftir að ég var kominn heim á Krók heyrði Lena sjúkraþjálfari í mér og vildi gjarnan fá að hjálpa mér í gegnum það. Hún hjálpaði mér mjög mikið og er ég mjög þakklátur með að hafa haft hana mér við hlið á þessum tímum. Svo eftir langa og erfiða sex mánuði fékk ég svo loksins grænt ljós frá Lenu um að fara út á völl og sparka í bolta aftur. Nú í byrjun júní lék ég minn fyrsta leik eftir meiðslin með 3. flokki á móti Völsungi hér á heimavelli,“ segir Bragi og bætir við: „Þetta endurhæfingartímabil var mikill andlegur rússíbani og vil ég þakka foreldrum mínum, systkinum og auðvitað Lenu sjúkraþjáfara fyrir að koma mér á rétta braut á ný!“
Feykir óskar strákunum velgengni og vonandi eiga þeir eftir að spila fjölmarga leiki með liði Tindastóls.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.