Börn fyrir börn í dag
Tónleikarnir Börn fyrir börn verða haldnir í dag, fimmtudaginn 4. maí, kl. 17 í Miðgarði. Tónleikarnir eru fjáröflunartónleikar og er markmið þeirra að safna fyrir nýju skynörvunarherbergi sem setja á upp í Iðju og einnig verður safnað í nýjan menningarsjóð fyrir börn og ungmenni sem stofnaður verður vorið 2017.
Markmið sjóðsins er að í komandi framtíð geti börn og unglingar sótt um styrki til listnáms, hljóðfærakaupa, listsköpunar, menningarstarfsemi, til námskeiðsgjalda o.fl. í sjóðinn. Aðstandendur tónleikanna gefa vinnu sína.
Aðgangur er ókeypis fyrir börn, 1500 kr. fyrir fullorðna og tekið verður við frjálsum framlögum í söfnunarbauk. Ekki verður posi á staðnum.
Á tónleikunum koma fram börn og unglingar sem leika á hljóðfæri, syngja og dansa svo eitthvað sé nefnt. „Viljum við koma fram þakklæti til allra þeirra sem taka þátt í þessu verkefni með okkur, börnum, unglingum og foreldrum þeirra,“ segir Kristín Halla Bergsdóttir en hún og Jóhanna Marín Óskarsdóttir standa að Barnamenningardögum á Sæluviku. „Þessir tónleikar eru frumraun okkar en verða vonandi árviss viðburður á Barnamenningardögum.
Fjölmennum og njótum barnamenningar og gerum fleiri kleift að njóta í framtíðinni. Við erum öll börn inn við beinið og njótum þess sem börn hafa fram að færa,“ segja þær stöllur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.