Árið 2021: Lífið er hverfult og morgundagurinn allt annað en sjálfsagður!
Hugrún Sif Hallgrímsdóttir á Ránarbrautinni á Skagaströnd gerir nú upp árið. Hún er skólastjóri, organisti, tónlistarkona, starfsmaður útfararþjónustu o.s.frv. Hún er bogmaður og lýsir árinu sem skrítnu, skemmtilegu og erfiðu.
Hver er maður ársins? Rúna Sif Rafnsdóttir sem gaf Eld Elí syni vinkonu sinnar hluta úr lifur sinni.
Hver var uppgötvun ársins? Rauður Collab og rjúpnahjörtu. Hið fyrra er hættulega ávanabindandi og hið síðara er eitthvað sem ég á eftir að stelast í úr pottinum á aðfangadag öll jól hér eftir.
Hvað var lag ársins? Ég er stöðugt að uppgötva ný lög þar sem ég fæst við tónlistarflutning og kennslu nánast alla daga, hlusta sjaldnast á útvarp nema kannski Rás 1 svo lög ársins eru ansi mörg, bæði af klassískum toga og veraldleg lög. Til að nefna eitt gæti ég nefnt Ómissandi fólk eftir snillingana KK og Magga Eiríks.
Hvað var broslegast á árinu? Litli dóttursonur minn sem kom okkur öllum að óvörum og faldi komu sínu til 20. viku án þess að nokkurn grunaði neitt.
Hvers heldurðu að þú eigir eftir að sakna frá árinu 2021 – eða ekki? Ég á ekki eftir að sakna byggingaframkvæmda þó það hafi verið sjúklega skemmtilegt og krefjandi að byggja sér hús, en ég á eftir að sakna veðurfarsins sem ég stórefast um að verði svona gott aftur.
Varp ársins? Ég er ekkert dugleg í vörpum en þessa dagana er ég að hlusta á hlaðvarpið Leitin að peningunum. Ég hlýt að verða mjög efnuð árið 2022 :)
Hverju viltu skella á brennuna og hvers vegna? Neikvæðni. Ég er með ofnæmi fyrir fólki sem hefur ekkert betra að gera en hafa horn í síðu náungans. Lífið getur verið svo fallegt og skemmtilegt ef fólk hefur bara áhuga á að skapa sér þannig líf.
Hver var helsta lexía ársins? Lífið er hverfult og morgundagurinn allt annað en sjálfsagður! Lexía sem maður þarf því miður stöðugt að vera minntur á, aftur og aftur og reyna tileinka sér í lífsmynstrinu dags daglega.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.