Allsstaðar eru þessir Skagfirðingar

Heiða Rún í Poldark er dóttir Sigga Marteins.
Heiða Rún í Poldark er dóttir Sigga Marteins.

Það er mikill gauragangur á heimasíðu Skagfirðingafélagsins í Reykjavík og er það að sjálfsögðu vel. Fréttaritari síðunnar fylgir sínu fólki eftir og er duglegur við að beintengja ættir flestra þeirra sem skara fram úr á heimsvísu heim í Skagafjörð. Þannig hefur bara í þessari viku verið bent á að íslenska stjarnan í Poldark-þáttunum og verðlaunahafi Norðurlandaráðs eru Skagfirðingar og ekki alls fyrir löngu var sparkhetjan Gylfi Sigurðsson tengd í Óslandshlíðina.

Íslenska leikkonan Heiða Rún Sigurðardóttir á rætur sínar að rekja til Skagafjarðar, nánar tiltekið austanvatna, í föðurætt. Heiða er barnabarn Marteins Friðrikssonar, sem lengi var framkvæmdastjóri Fiskiðjunnar, og Ragnheiðar J. Bjarman.

Um kvikmyndagerðarmanninn Dag Kára Pétursson, sem fékk verðlaun Norðurlandaráðs fyrir myndina Fúsi, segir á síðunni: Dagur Kári Pétursson ... er í móðurætt frá Ketu á Skaga. Afi hans, Ragnar Ármann Magnússon, fæddist á Ketu árið 1917 en bjó lengstum í Reykjavík og starfaði þar sem endurskoðandi. Langafi Dags Kára, Magnús Árnason á Ketu, var bróðir Guðrúnar frá Lundi.

Þá segir á síðu Skagfirðingafélgasins að besti maður Íslands í undankeppni EM, Gylfi Þór Sigurðsson, tengist Skagafirði traustum böndum. Afi hans í móðurætt, Ólafur Gíslason, ólst upp á Undhóli í Óslandshlíð og var afreksmaður í íþróttum á yngri árum. Áður hafði verið gerð frétt þess efnis að þrír Skagfirðingar gætu verið á leið til Frakklands með þeim Lars og Heimi, þeir Kári Árnason, Hólmar Eyjólfsson og Rúnar Már Sigurjónsson.

Það er meistari Björn Jóhann Björnsson sem er fréttaritari síðunnar og er fundvís á snotra skagfirska fleti. Sömuleiðis er eðalfólk í stjórn Skagfirðingafélagsins í Reykjavík; formaður er Auður Sigríður Hreinsdóttir (Lúlla), ritari er Hulda Jónasdóttir, gjaldkeri Valgerður Friðriksdóttir og meðstjórnendur eru Valgerður Erlingsdóttir og Ágúst Kárason. Til vara eru síðan þau Sigríður Sigurlína Pálsdóttir (Silla Páls), Freyja Ólafsdóttir og Rúnar Birgir Gíslason.

Heimasíða Skagfirðingafélagsins í Reykjavík >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir