Aðventutónleikar Sönglaganna

Nú um helgina verður Skagfirðingum boðið upp á sannkallaða tónlistarveislu þegar Sönglögin standa fyrir aðventutónleikunum Hátíð í bæ, annars vegar á Hofsósi í kvöld og hins vegar í Miðgarði á laugardagskvöld. Sérstakur gestur á tónleikunum verður stórsöngvarinn geðþekki, Pálmi Gunnarsson, sem á stóran sess í hugum landsmanna þegar hugurinn leitar til ástsælustu jólalaganna. Þeir Einar Þorvaldsson og Stefán Gíslason, kennarar við tónlistarskóla Skagafjarðar, sem standa á bak við Sönglögin segja þeir hafi lengi haft hug á að fá Pálma til að koma fram á tónleikum með þeim en hann hafi alltaf verið uppbókaður á þessum tíma svo nú sé loksins langþráðu marki náð.

Sönglögin hafa í gegnum tíðina staðið fyrir mörgum skemmtilegum tónlistarviðburðum, allt síðan Miðgarður var opnaður eftir endurbætur í maí árið 2009. Má þar nefna tónleika á Sæluviku, jólatónleika, leiksýningar og innansveitarkrónikur með samblandi af tónlist og gamanmáli. Það er nokkuð ljóst að án þessara tveggja drifkrafta í tónlistarlífi fjarðarins værum við talsvert fátækari á menningarsviðinu þó þeir séu ósköp lítillátir og segist nú ósköp lítið geta gert einir og sér. Þeir viðburðir sem þeir hafa staðið fyrir hafa alltaf notið mikilla vinsælda og segir Einar að Skagfirðingar hljóti eiga met bæði í þátttöku og aðsókn á menningarviðburði, sé miðað við höfðatöluna góðu.

Hljómsveitina skipa að þessu sinni þeir Stefán R. Gíslason, Einar Þorvaldsson, Margeir Friðriksson, Jóhann Friðriksson og Vilhjálmur Ingi Sigurðarson. Með hljómsveitinni koma fram þær Ragnhildur Sigurlaug Guttormsdóttir, Matthildur Ingimarsdóttir, Lydía Einarsdóttir, Rannveig Sigrún Stefánsdóttir og Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir. Ólafur Atli Sindrason sér um að kynna atriðin og les auk þess jólasögu.

Athygli vekur hve unga kynslóðin skipar stóran sess meðal flytjenda að þessu sinni en fjórar fyrsttöldu söngkonurnar eru á aldrinum 9-15 ára. „Við höfum alltaf lagt mikla áherslu á að hafa unga fólkið með í þessu tónleikahaldi, því þar er framtíðin. Að fá landsfræga söngvara með okkar unga fólki er mjög þroskandi og hvetjandi og framkallar almenna ánægju hjá flytjendum og áheyrendum. Að þessu sinni koma fram ungir einsöngvarar sem hafa lagt sig fram í tónlistarnámi og félagsstarfi í skólunum. Þetta kemur okkur öllum til góða, styrkir menningarstarfið inn í framtíðina,“ segir Stefán. „Tónlistarskóli Skagafjarðar er grunnurinn í uppbyggingarstarfi með unga fólkinu í öllum firðinum. Þar eru þau að spila og syngja með kennurum sínum og öðrum nemendum,“ bætir Einar við.

Eins og fyrr segir verða tónleikarnir haldnir á tveimur stöðum sem hlýtur að skapa aukna vinnu fyrir þá sem að þeim koma þó vissulega sé þar með komið til móts við fleiri íbúa svæðisins. „Þetta eru einfaldlega þau hús í Skagafirði sem eru með fyrsta flokks hljóðkerfi og  góðum ljósabúnaði og gaman að setja upp viðburði í,“ segir Einar. En borgar þetta sig? „Ha ha, nei nei en með stuðningi frá uppbyggingarsjóðnum þá er þetta gerlegt en það er alveg ljóst að án styrkja væri þetta ekki hægt,“ segir Einar glaðbeittur.

Tónleikarnir hefjast klukkan 20:30 bæði kvöldin. Hægt er að panta miða í síma 899-9480.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir