Umhverfisviðurkenningar veittar í gær
Umhverfisviðurkenningar voru veittar í Húsi Frítímans í gær en um er að ræða samstarfsverkefni Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Soroptimistaklúbbs Skagafjarðar. Var þetta í sjöunda sinn sem viðurkenningar voru veittar og öll framkvæmd verkefnisins var í höndum kvenna í klúbbnum.
Um sumarið voru farnar tvær ferðir um allt sveitarfélagið, bæði í dreifbýli og þéttbýli. Tillögum voru skilað til fjáröflunarnefndar klúbbsins, sem tók lokaákvörðun í samráði við Helgu Gunnlaugsdóttur, garðyrkjustjóra sveitarfélagsins.
„Mikil vinna og natni er lögð í þetta val og ánægulegt að sjá hve margir koma til greina til viðurkenninga. Val þetta fer aftur fram að ári og viljum við hvetja alla til að halda áfram að fegra umhverfi sitt,“ segir í fréttatilkynningu Soroptimistaklúbbsins.
Viðurkenningar eru veittar árlega í allt að sjö flokkum. Hins vegar voru viðurkenningar veittar einungis úr sex flokkum í ár þar sem ekki fannst sú gata sem þótti skara fram úr þetta árið, en vonandi finnst hún að ári.
Umhverfisviðurkenningar Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árið 2011 fengu:
Páfastaðir fyrir snyrtilegasta sveitabýlið með hefðbundinn búskap. Þar búa Kristín Jóhannesdóttir og Sigurður Baldursson.
Tröð fyrir snyrtilegasta sveitabýlið með óhefðbundinn búskap. Þar búa Sóley Skarphéðinsdóttir og Gestur Þorsteinsson.
Brekkutún 5, Sauðárkróki fyrir snyrtilegustu lóðina í þéttbýli. Þar búa Hjördís Ingimarsdóttir og Ingvar Magnússon.
Vindheimamelar fyrir snyrtilegasta umhverfi fyrirtækis. Svæðið er rekið af Gullhyl, sem er í eigu hestamannafélaga í Skagafirði.
Vegagerðin á Sauðárkróki fyrir snyrtilegasta umhverfi stofnunar.
Fosslaug við Reykjafoss í Svartá sem einstakt framtak. Sameiginlegt framtak félagsins Á Sturlungaslóð og landeigenda Reykja.
Í meðfylgjandi myndasafni má skoða myndir frá afhendingu umhverfisviðurkenninganna í gær, auk mynda frá þeim stöðum sem þóttu Skagafirði mest til prýði þetta árið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.