„Þetta er búinn að vera erfiður dagur“

Það hefur verið í nógu að snúast hjá Björgunarsveitinni Gretti á Hofsósi í dag. Sautján útköll hafa verið skráð hjá sveitinni og stóðu aðgerðir í um tíu klukkustundir. „Þetta er búinn að vera erfiður dagur,“ segir Ingvar Daði Jóhannsson, ritari Björgunarsveitarinnar Grettis.

„Við höfum sinnt sautján verkefnum sem skráð voru í dag, auk margra smærri verka sem gengið var í áður en útköll bárust,“ sagði Ingvar Daði ennfremur, þegar Feykir sló á þráðinn til hans nú um kvöldmatarleytið.

Að sögn Elvars Más Jóhannssonar, formanns Björgunarsveitarinnar Grettis, virðist fólk hafa verið vel undirbúið fyrir veðrið og ekki hefði verið hægt að koma í veg fyrir það mikla foktjón sem orðið hefur. Veðurofsinn var gríðarlegur og til marks um það fuku 27 heyrúllur af hlaðinu á Hólkoti í Unadal og enduðu út í á. Er talið að vindhraðinn þar hafi farið upp í 60-70 m/sek þegar verst lét.

Útivistarbekkur með borði, sem stóð fyrir ofan Staðarbjargarvík, fauk af stað og splundraðist og fór hluti af honum í gegnum girðingu við sundlaugina og braut rúðu í sundlaugarbyggingunni. Hluti af honum lenti svo hinum megin við sundlaugina, þeim megin sem gatan liggur.

Þá fauk þak í hálfu lagi af íbúðarhúsi á Grund 2, járn, pappi og einangrun með þeim afleiðingum að þakið opnaðist. Um leið og tök voru á vegna veðurofsans var farið með segl til að minnka skaðann og gera þakið vatns- og vindhelt. Þá má geta þess að toppurinn af ísklefanum á frystihúsinu fór af í heilu lagi.

Elvar Már segir að á útkallslista hjá Gretti séu um 15 til 20 manns og hafi um tíu þeirra verið að störfum í dag í viðamiklum aðgerðum sem tóku um tíu klukkustundir.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir