Sylvía Magnúsdóttir nýr formaður UMSS
95. ársþing UMSS var haldið laugardaginn 7. mars í Tjarnarbæ, félagsheimili hestamannafélagsins Léttfeta á Sauðárkróki sem einnig var gestgjafi að þessu sinni. Formannsskipti urðu í sambandinu þar sem Sylvía Magnúsdóttir frá Hlíðarenda í Óslandshlíð tók við af Jóni Daníel Jónssyni sem gegnt hefur embættinu síðustu ár.
Viðsnúningur varð á rekstri sambandsins þar sem niðurstaða rekstrarreiknings sýndi rúmlega eina milljón krónur í afgang í stað rúmra sextán hundruð þúsunda í mínus árið áður. Munaði þar mestu um aukna styrki milli ára en þess má geta að UMSS sá um Unglingalandsmótið sl. sumar. Þá var samþykkt á þinginu að sækja um að halda Unglingalandsmót UMFÍ 2018.
Tveir gestir heiðruðu þingið með nærveru sinni þeir Viðar Sigurjónsson frá ÍSÍ og Baldur Daníelsson frá UMFÍ og ávörpuðu fundargesti.
Ný stjórn er skipuð eftirfarandi:
Sylvía Magnúsdóttir formaður, Gunnar Þór Gestsson, Þorvaldur Gröndal, Guðmundur Þór Elíasson og Steinunn Rósa Guðmundsdóttir. Úr stjórn gekk Guðríður Magnúsdóttir. /PF
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.