Stórgóð skemmtidagskrá í boði Tindastóls
Tindastóll fékk Þrótt Reykjavík í heimsókn á Sauðárkróksvöll í kvöld. Leikurinn var hin besta skemmtun en eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik tóku Stólarnir öll völd í þeim seinni og unnu afar öruggan sigur, 3-1, settust í fjórða sætið í 1. deild og eru nú efstir norðanliða.
Fínar aðstæður voru á Króknum í kvöld, nánast logn og sæmilega hlýtt og völlurinn í flottu formi. Tindastólsmenn byrjuðu leikinn betur og voru sterkari aðilinn fyrsta stundarfjórðunginn án þess þó að skapa sér nein dauðafæri. Þróttarar komu síðan sterkir inn í leikinn og fengu aragrúa af hornspyrnum og fjórum sinnum bjargaði Seb Furness heimamönnum með fínni markvörslu á síðasta stundarfjórðungi fyrri hálfleiks. Þá hafði Þrótturum gengið vel að trufla spil heimamanna og unnu hvað eftir annað boltann á vallarhelmingi Stólanna. En ekkert mark var gert í fyrri hálfleik og Tindastólsmenn sennilega fegnir að geta rætt málin og skipulagt leik liðsins fyrir síðari hálfleik.
Og eitthvað gáfulegt hefur verið sagt við Stólana í hálfleik því leikmenn komu dýróðir til leiks í seinni hálfleik og voru hreint út sagt drullugóðir. Það var fín stemning í stúkunni og stuðningsmenn Stólanna skemmtu sér vel yfir fótboltanum sem var í boði. Ben J. Everson, sem barðist eins og ljón í fyrri hálfleik en lítið gekk upp hjá honum, var stórkostlegur í síðari hálfleik og hann kom Stólunum yfir með laglegu marki á 51. mínútu. Fékk boltann nokkuð utan teigs, skapaði sér ágætt skotfæri og lyfti boltanum í mark Þróttara. Við markið tvíefldust heimamenn og hvert færið rak annað. Max Touloute kom inná og með hann og Theo Furness á köntunum og Ben á toppnum lá við að menn vorkenndu varnarmönnum gestanna. Dominic Furness fór framhjá miðjumönnum Þróttar eins og að drekka vatn og í raun spiluðu allir leikmenn Tindastóls glimrandi vel, boltinn gekk manna á milli og gestirnir áttu varla breik. Max Touloute gerði annað markið á 62. mínútu eftir hreint fáránlegan einleik hjá Ben sem hafði leikið á 4-5 leikmenn áður en hann stakk boltanum á Max sem negldi í markið. Áfram héldu Stólarnir að pína gestina og þriðja markið á 72. mínútu kom eftir hornspyrnu, nú stangaði Fannar Örn Kolbeinsson boltann óverjandi í markið – eiginlega í gegnum markmanninn! Fannar var reyndar ekki lengi í paradís því hann fékk að líta rauða spjaldið tveimur mínútum síðar þegar dómarinn mat að hann hefði varið skot Þróttara eftir hornspyrnu með hendi. Sennilega réttur dómur þó hann hafi virkað harður. Þróttur fékk að sjálfsögðu vítaspyrnu sem þeir skoruðu úr þrátt fyrir að Seb hefði skutlað sér í rétt horn. Gestirnir pressuðu næstu 5 mínúturnar á meðan að Tindastólsmenn endurskipulögðu varnarleikinn en svo fór hreinlega allt í sama farið, einum færri sköpuðu Stólarnir sér fín færi og spiluðu Þróttara oft sundur og saman en bæði lið fengu reyndar færi á lokamínútunum. Lokatölur urðu 3-1 og flottur sigur staðreynd.
Allir leikmenn Stólanna stóðu vaktina með glæsibrag í kvöld, það er virkilega gaman að sjá fótboltann sem liðið er að spila og þá virðist breiddin í liðinu góð. Ben J. Everson var þrusugóður; hljóp eins og hestur, fór illa með Þróttara og virtist skemmta sér hið besta á vellinum. Þá var Dominic Furness flottur og Árni Arnarson átti virkilega góðan leik.
Fyrir leikinn voru Stólarnir í sjötta sæti 1. deildar en í raun aðeins einu stigi fyrir ofan liðið í neðsta sæti deildarinnar sem er hrikalega jöfn og spennandi. Eftir þennan leik er liðið í fjórða sæti með 14 stig og á einn leik inni, útileik gegn Þór Akureyri sem er með jafn mörg stig og Tindastóll en á tvo leiki inni. Næsti leikur Tindastóls er hér heima á laugardaginn en þá koma Haukar í heimsókn og hefst leikurinn kl. 16:00. Allir á völlinn!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.