Sigur í síðasta heimaleik sumarsins
Meistaraflokkur kvenna hjá Tindastóli tók á móti liði BÍ/Bolungarvíkur í síðasta heimaleik sínum á þessu tímabili á föstudagskvöldið. Tindastólsstúlkur byrjuðu leikinn betur og strax á 7. mínútu kom Guðrún Jenný Ágústsdóttir liði Tindastóls yfir 1-0.
Tindastólsstúlkur sköpuðu sér nokkur góð færi í fyrri hálfleik en tókst ekki að klára þau. Þær komu svo aftur sterkar inn í seinni hálfleikinn og á 88. mínútu bætti Þóra Rut Jónsdóttir við öðru marki Stólastúlkna og á síðustu mínútunum skoraði Laufey Rún Harðardóttir þriðja og síðasta mark Stólanna í leiknum. Lokatölur 3-0.
-Þetta var flottur leikur af okkar hálfu fyrir utan 20 mínútna kafla í seinni hálfleik. Við byrjuðum af krafti og tókum leikinn yfir strax. Við áttum að vera búin að klára leikinn í fyrri hálfleik, en allt kom fyrir ekki. Gott að fá tvö mörk í lokin og klára leikinn 3-0 og halda hreinu, það er mikill plús og gefur okkur aukið sjálfstraust fyrir framhaldið. Við erum í 4. sæti núna og stefnan er að halda því. Við eigum erfiðan leik eftir á móti HK/Víking á miðvikudaginn, sem er seinasti leikur tímabilsins. Það verður allt lagt í sölurnar og klárað tímabilið með stæl, segir Arnar Skúli Atlason aðstoðarþjálfari mfl. kvenna.
Tindastólsstúlkur áttu flottan leik og eru nú í 4. sæti riðilsins með 21 stig eftir 15 leiki.
Næsti leikur hjá stelpunum er miðvikudaginn 27. ágúst, en þá mæta þær HK/Víking á Víkingsvelli og hefst leikurinn kl. 18:00.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.