Sanngjarn sigur BÍ/Bolungarvíkur
Lið BÍ/Bolungarvíkur kom, sá og sigraði á Sauðárkróksvelli í gær þegar vestfirsku stúlkurnar sóttu Tindastól heim í 1. deild kvenna. Gestirnir gerðu þrjú mörk í fyrri hálfleik og þar sem hvorugu liði tókst að skora í síðari hálfleik þá lauk leiknum 0-3.
Gestirnir léku undan nokkuð snörpum norðanvindi í fyrri hálfleik og höfðu öll völd í leiknum. Fyrsta markið gerði Marilla de Melo á 29. mínútu en lið BÍ/Bolungarvíkur gerði út um leikinn með tveimur mörkum rétt fyrir hlé. Annað mark gestanna gerði Melkorka Brá Karlsdóttir á 43. mínútu og svo bætti Marilla de Melo við marki úr vítaspyrnu á 45. mínútu.
Tindastólsstúlkur reyndu hvað þær gátu að koma sér inn í leikinn í síðari hálfleik en gekk illa að ráða við vindinn og þá voru gestirnir stórhættulegir í skyndisóknum sínum. Sérstaklega átti Talita B. Pereira flottan leik fyrir BÍ/Bolungarvík, eldsnögg og teknísk og lék varnarmenn Tindastóls oft grátt þó henni tækist ekki að skora í leiknum. Varla er hægt að segja að heimastúlkum hafi tekist að skapa sér almennilegt færi í síðari hálfleik og lokatölur 0-3 og sigur gestanna sanngjarn.
Í liði Tindastóls átti Kristrún Halla Eiríksdóttir markvörður ágætan leik og kom sannarlega í veg fyrir að sigur gestanna yrði stærri.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.