Nú er úti veður vont

Það hefur vart farið fram hjá neinum á Norðurlandi vestra, né heldur annars staðar á landinu, að vetur konungur hefur minnt hressilega á sig undanfarna daga. Um tíma var til að mynda ekki hundi út sigandi á Sauðárkróki, enda mældist vindhraðinn hátt í 40m/ sek á Bergstöðum og lögreglan bað fólk að vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu.

Lögreglan á Blönduósi hefur haft í nógu að snúa undanfarna daga, sem og björgunarsveitir á svæði 9, sem nær yfir báðar Húnavatnssýslurnar. Þegar Feykir hafði samband við lögregluna á Blönduósi í byrjun vikunnar höfðu verið hátt í tíu útköll vegna hálku og færðar þar sem björgunarsveitir voru fengnar til aðstoðar.

Engin slys höfðu þó orðið á fólki né meiriháttar skemmdir. Björgunarsveitarmenn hafa einnig aðstoðað vegna lokana á fjallvegum. Á meðfylgjandi mynd er verið að aðstoða bíl sem var utan vegar við Hnausa í Vatnsdal vegna hálku. Róbert Daníel Jónsson tók myndina.

Guðmundur Valtýsson á Eiríksstöðum í Svartárdal í Austur-Húnavatnssýslu sagði i samtali við Feyki í vikunni að hann myndi vart annað veður og snjóalög eins þau 40 ár sem hann hefði verið við búskap í dalnum. Allar girðingar væru á kafi og erfitt að halda hrossum í skefjum. Í verstu hryðjunum væri vart fært milli útihúsa og bæjar og þá hefðu ljósastaurar komið sér vel.

Skólahald hefur víða legið niðri í dag, viðburðum verið aflýst og sundlaugum og öðrum almenningsstöðum verið lokað á meðan versta veðrið gekk yfir. Á Húnavöllum var ansi mikill snjór þegar opnað var út í dag. Meðfylgjandi mynd er fengin af fésbókarsíðunni Sveitin okkar – Húnavatnshreppur.

Mynd: Fésbókarsíðan Sveitin okkar - Húnavatnshreppur/ Rannveig Bjarnadóttir. Mynd: Fésbókarsíðan Sveitin okkar - Húnavatnshreppur/ Rannveig Bjarnadóttir.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Á Sauðárkróki hefur veðrinu heldur slotað, í bili að minnsta kosti. Myndirnar hér að neðan voru teknar þar um tvö leytið í dag, eftir að veðrið fór að ganga niður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir