Ljúf stund í Sauðárkrókskirkju

Kirkjukór Sauðárkrókskirkju stóð í gærkvöldi fyrir árlegu Kirkjukvöldi á Sæluviku. Vel var mætt í kirkjuna og jafnvel hinir bjartsýnustu voru glansandi ánægðir með mætinguna og ekki síður tónlistarflutning og flutt mál. Að lokinni dagskrá í kirkju bauð sóknarnefnd kórnum, listamönnum og öðrum sem að dagskránni komu til kaffisamsætis í Safnaðarheimilinu.

Kirkjukvöldið hófst með söng Kirkjukórsins sem söng af mikilli list undir stjórn Rögnvaldar Valbergssonar organista sem að auki tók í nikkuna og gítarinn. Helga Bryndís Magnúsdóttir spilaði undir á píanó af alkunnum glæsibrag.

Þegar kórinn gerði hlé á söng sínum flutti Páll Brynjarsson sveitarstjóri Borgarbyggðar ræðu þar sem hann rifjaði meðal annars upp nokkrar ágætar sögur tengdar æskuárunum á Króknum auk þess sem hann fjallaði í nokkrum orðum um samfélagið. Hann sagði þau samfélög blómstra sem opin væru fyrir nýjum hugmyndum og taki vel á móti nýju fólki.  Viðhorf fólks stýri því hvernig við upplifum veruleikann og hjálpi okkur að skilgreina hvað  eru tækifæri og hvað eru ógnanir.

Þegar Páll hafði lokið máli sínu flutti Þóra Einarsdóttir sópran nokkur lög við undirleik Helgu Bryndísar og verður ekki annað sagt en söngur og framkoma Þóru hafi vakið mikla hrifningu viðstaddra. Enda hvatti kynnir kvöldsins, hinn orðheppni Hilmir Jóhannesson, til þess að hún væri ítrekað klöppuð upp og þurfti raunar ekki að reka þar á eftir.

Kirkjukórinn átti síðan lokalögin og var að sjálfsögðu klappaður upp í þrígang, en dagskrá kórsins var bæði hugljúf og skemmtileg og kenndi margra grasa í lagavali.

Það voru því vel sáttir kirkjugestir sem gengu úr kirkju sinni útí fallegt vorkvöld í Skagafirði að loknu Kirkjukvöldi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir