Leitin að lóunni bar ekki árangur
Blaðamanni Feykis barst það til eyrna að heyrst hafi í lóunni á Sauðárkróki á páskadagsmorgun en viðkomandi gat ekki staðfest það að hafa séð hana berum augum. Hugsandi um fréttir fyrr í vor er starranum var kennt um að herma eftir lóunni var ákveðið að leita að vorboðanum og reyna að ná á mynd.
Eini fuglinn sem var í garði blaðamanns var þröstur sem söng af mikilli list en þar hafa starrar verið allsráðandi mikinn hluta vetrarins. Ekki minnist blaðamaður þó að þeir hafi gefið frá sér dirrindíið fræga. Farið var um bæinn og upp á Nafir en oft sést lóan á golfvöllum Hlíðarenda að tína orma í gogginn á sér. Ekki var hún þar en nokkrir mávar voru á nærliggjandi túnum efalaust að ná sér í einhver skorkvikindi. Á hafnarsvæðinu var enga lóu að sjá en fuglalífið nokkuð fjölbreytt en þar sáust mávar, æðarkollur, hrafnar og tjaldur svo einhverjir séu nefndir. Tjaldurinn er mikill vorboði en segir ekki mikið svo hann er ekki oft nefndur þegar þeirra er leitað.
Ferðinni var heitið að Áshildarholtsvatni en þar er fuglalífið mikið þegar sumarið er komið og sérstakur fuglaskoðunarstaður fyrir forvitna. Ekki var hægt að komast að fuglaskoðunarspjaldinu þar sem stór og öflug hestakerra styður við hana en gerði líklega ekki til að þessu sinni þar sem lítið var um fugla á vatninu. Andarpar synti þó í fjarska og álftir í suðurenda þess. Skammt frá er hesthús veiðimannsins Guðmundar Sveinssonar og var líkt og rjúpurnar og gæsirnar væru að gera grín að honum þar sem þær hvítu kúrðu sig við hringgerðið en þær gráu vöppuðu um túnið hans.
Farinn var rúntur um sveitir, fram í Varmahlíð og út Blönduhlíð þar sem álftir, gæsir og helsingjar sáust víða á túnum og endur í skurðum. Í Viðvíkursveitinni sást smyrill sitjandi á bæjarskilti líkt og hann væri að segja til vegar. Ekki var þó farið niður að Kolkuósi heldur var hringnum lokað heim á Krók. Ekki varð blaðamaður var við lóuna í þessari ferð en aðrir vorboðar sem komnir eru boðnir velkomnir.
.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.