Landhelgisgæslan á Króknum - myndir
Ægir, varðskip Landhelgisgæslunnar, lagði að bryggju á Sauðárkróki rétt fyrir kl. 16 í dag og verður hér við höfn til kl. 20 í kvöld. Þá halda þeir út á fjörðinn þar sem stefnt er á að halda björgunaræfingu á sjó, ásamt þyrlu Landhelgisgæslunnar. Þegar blaðamaður Feykis spurði skipsmenn í hvaða erindagjörðum þeir væru þá svöruðu þeir: „Við erum að skutla stýrimanninum heim til konu sinnar og barna,“ sögðu þeir og hlógu en sá heitir Pálmi Jónsson og er fæddur og uppalinn á Króknum.
Blaðamaður Feykis fékk að líta inn í brúnna og hitti þar fyrir skipstjórann, Einar H. Valsson og sagði hann góðfúslega frá störfum gæslunnar og hvað þeir hafa fyrir stafni um þessar mundir.
„Það er komið svo langt síðan við komum hingað á Krókinn síðast að það var kominn tími til að koma hér við,“ segir Einar og bætir við að þeim finnst nauðsynlegt að reyna að koma sem oftast við í hinum ýmsu höfnum landsins til að sýna sig og sjá aðra og til að halda tengslum.
Ægir kom síðast á Sauðárkrók þegar skipið átti að flytja ísbjörninn, sem hingað kom á land árið 2009, til Grænlands en ekkert varð þó úr því. „Við erum í ýmsum verkum,“ segir Einar og brosir. „Ég man þegar ég var messadrengur á Tý og við vorum fengnir til að flytja rostung til Grænlands. Hann hafði flækst suður til Hollands og einhverjir náttúruverndarsinnar tóku sig saman og sendu hann með flugi til Keflavíkur og þaðan sigldum við með hann til Grænlands.“
Ægir í góðu standi
Ægir var smíðaður árið 1968 en síðan þá hefur brúin verið endurnýjuð, árið 2006, og stór hluti af herbergjum skipsins. „Margir hafa haft orð á því erlendis að þeir trúa vart að skipið sé frá 1968 þar sem það er í svo góðu standi, halda frekar að það sé frá árinu 1986,“ segir Einar og hlær. Nýja varðskipið Þór barst einnig til tals en það er um helmingi stærra en Ægir. „Það stendur til að sigla umhverfis landið og leyfa fólki að skoða nýja skipið sitt.“
Landhelgisgæslan hefur verið að taka að sér ýmsa verktakavinnu síðan árið 2010 sem Einar segir hafa verið nauðsynlegt til að auðvelda reksturinn á skipunum en hart hefur verið í ári eftir hrunið. Þá hafa þeir helst verið í landamæragæslu á sumrin, á milli Afríku og Evrópu, en sl. sumar voru þeir t.d. umhverfis Krít og komu þeir fjölmörgum flóttamönnum þar til bjargar.
Fjölbreyttar æfingar í Skagafirði
Í morgun voru kafarar landhelgisgæslunnar, sem starfa um borð í Ægi, við æfingar við Lundey. „Þeir voru að reyna að hafa upp á skipsflaki sem sökk við Lundey árið 1930 en það voru miklir straumar og hafðist það því ekki að þessu sinni,“ segir Einar.
Skipið heldur aftur út kl. 20 en þyrla landhelgisgæslunnar kemur á Alexandersflugvöll um kl. 19 og svo verða haldnar sameiginlegar björgunaræfingar á sjó. Þá fara fram sigæfingar en þar sem myrkur verður skollið á verða notaðar til þess nætursjónaaukar. Einar segir að slíkar æfingar séu haldnar reglulega, a.m.k. á 2-3 mánaða fresti, þar sem slík björgun er vandasöm og nauðsynlegt að halda kunnáttunni við.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.