Kappar KF kveðnir í kútinn
Tindastóll/Hvöt bar sigurorð af liði Knattspyrnufélags Fjallabyggðar í baráttuleik á Sauðárkróksvelli í kvöld. Gestirnir verða að teljast óheppnir að hafa tapað leiknum en sameinað lið Siglfirðinga og Ólafsfirðinga var sterkari aðilinn heilt yfir. Heimamenn gáfu engu að síður fá færi á sér og stálu síðan öllum stigunum í uppbótartíma og fögnuðu af krafti í leikslok. Lokatölur voru 2-1.
Leikurinn byrjaði fjörlega við algjörar toppaðstæður á Króknum, glampandi sól og ljúfan andvara. Lið KF byrjaði vel og var komið með forystu eftir fimm mínútna leik þegar góð fyrirgjöf frá Milos Glogovac hafnaði í marki heimamanna. Bæði lið hefðu getað skorað í kjölfarið, Tindastóll/Hvöt átti skot í stöng, en það var síðan Ingvi Hrannar sem fékk dæmda vítaspyrnu eftir að brotið var á honum í teignum. Gísli markvörður skokkaði yfir völlinn og skoraði af öryggi úr spyrnunni og staðan jöfn. Jafnræði var með liðunum fram að hléi.
Í síðari hálfleik hvessti talsvert og kólnaði þegar Skarðagolan lét á sér kræla. Heldur virtist golan hafa jákvæðari áhrif á gestina sem gekk mun betur að halda boltanum og voru sömuleiðis miklu grimmari á boltann. Þeim gekk hins vegar illa að skapa sér verulega góð færi og þá var Gísli góður í markinu og greip vel inní þegar á þurfti að halda. Og meðan staðan var 1-1 gátu bæði lið stolið stigunum og þó svo stuðningsmenn Stólanna/Hvatar hafi sennilega verið farnir að búast við að pressa gestanna ætti eftir að skila þeim marki þá fór það svo að í uppbótartíma gerðu heimamenn sigurmark leiksins. Eftir hornspyrnu datt boltinn fyrir fætur Milan Markovic sem hafði lætt sér inná fjærstöng og setti kappinn boltann af öryggi í mark KF og fagnaði síðan með ógurlegum spretti og glæsilegri dífu a la Klinsmann. Ekki náði lið KF að skapa sér almennilegt færi það sem eftir lifði leiks og því fögnuðu heimamenn sætum sigri.
Lið heimamanna átti ekki góðan leik í kvöld en vörnin stóð þó vel fyrir sínu sem og Gísli í markinu. Baráttan var til staðar og sigurinn sannarlega mikilvægur. Skemmtileg stemning var á vellinum í kvöld og hafa heimamenn eignast háværan hóp stuðningsmanna sem kváðu stuðningsmenn gestanna í kútinn með fagurlega ortum (eða þannig) vísum. Hélt söngurinn hita á léttklæddum stuðningsmönnum þegar Skarðagolan fór að segja til sín. Hér fyrir neðan má sjá nokkrar ágætar myndir frá leiknum og þá sérstaklega fagnaðarlátum í kjölfar sigurmarksins.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.