Jú, það voru sko allir í stuði!
Síðastliðinn sunnudag stóð sveiflukóngurinn Geirmundur Valtýsson fyrir tvennum útgáfutónleikum í Menningarhúsinu Miðgarði í Varmahlíð í tilefni af nýja geisladisknum, Skagfirðingar syngja. Í síðasta lagi fyrir hlé spurði Geirmundur hvort ekki væru allir í stuði. Hann þurfti bara að spyrja einu sinni; það voru nefnilega allir í stuði og ekki annað hægt.
Diskurinn nýji er fullur af fínum lögum úr smiðju Geira, hressar og skemmtilegar sveiflur í bland við snotrar ballöður. Það er ekki að heyra að kappanum sé eitthvað farið að förlast í kúnstinni að smíða lög og þó flestir í Miðgarði væru að heyra lögin í fyrsta sinn þá voru þau komin á heilann með það sama. Ýmsir hagyrðingar hafa lagt Geira til texta, eins og einatt, en það eru Skagfirðingarnir Sigurður Hansen, Ingimar Bogason, Hilmir Jóhannesson, Anna Þóra Jónsdóttir frá Vatnsleysu, Kristján Örn Kristjánsson, Þorleifur Konráðsson, Árni Gunnarsson og Geiri sjálfur en auk þeirra eiga Skerjafjarðarskáldið Kristján Hreinsson og Þorsteinn Eggertsson einn texta hvor.
Hljómsveit kvöldsins var ekki af verri endanum. Tónlistarstjóri var Vilhjálmur Guðjónsson sem spilaði á gítar og saxófón en hann hafði jafnframt yfirumsjón með upptökur á disknum. Á bassa var Finnbogi Kjartansson, Rögnvaldur Valbergsson lék á hljómborð og harmóniku, Ástvaldur Traustson lék sömuleiðis á hljómborð, Ásgeir Stuðmaður Óskarsson var á trommur, Kristinn Svavarsson (sem lék með Mezzoforte í árdaga þeirrar frábæru sveitar) sá um saxófón og þverflautu og loks var Elvar Bragi Kristjánsson á trompet og hristur. Hljóðmaður var Bjarni Bragi Kristjánsson og það var að sjálfsögðu erkisnillingurinn Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson sem hafði veg og vanda af lýsingu og sviðsmynd.
Söngvararnir á disknum og tónleikunum voru allir skagfirskir ef frá er talinn heiðursgestur kvöldsins. Fyrst á svið voru Bergrún Sóla Áskelsdóttir og Sigvaldi Helgi Gunnarsson og fluttu lagið Lífið og lækurinn. Þá kom annað par, Sveinn Rúnar Gunnarsson og Erna Rut Kristjánsdóttir, og tóku stuðlagið Sunna. Áftagerðisbræður fluttu fallegan óð, Skagfirðingar syngja, og þakkaði Óskar Geirmundi fyrir að hafa í uuphafskynningu sagt að ungir söngvarar sæju um sönginn á tónleikunum. Ólöf Ólafsdóttir flutti því næst lagið Viðvíkursveit, þá kom barítónninn Ásgeir Eiríksson og söng með glæsibrag lagið Drangey. Næstur á svið var bakarameistarinn Róbert Óttarsson og snaraði sér lauflétt í gegnum Það varst þú og síðan mætti Sigvaldi aftur á svið með lagið Hvar sem ég er sem hann söng af þekktum glæsibrag. Barnabarn Geira, Anna Karen Hjartardóttir, aðeins 10 ára gömul, söng á sínum þriðju tónleikum með afa sínum, nú lagið Ég gæti. Þá mættu bræðurnir Árni Geir og Jóhann Sigurbjörnssynir og sungu saman lagið Skagafjörður og síðust á svið fyrir hlé var Erna Rut sem söng Hvað á svo að gera í kvöld? ásamt Geira.
Hinn 15 ára gamli Róbert Gunnarsson hóf leik eftir hlé með því að syngja hið ljúfa Söngur um söng. Þá mætti Erna Rut í þriðja skiptið og hleypti öll upp með laginu Úlala en Erna stóð sig með glæsibrag á tónleikunum. Næst komu tvær magnaðar söngkonur; fyrst Valdís Valbjörnsdóttir, 16 ára, sem rétt eins og Anna Karen er barnabarn Geira. Hún söng fallegt lag til minningar um vinkonu sína og frænku, Önnu Jónu Sigurbjörnsdóttur, en lagið heitir Söknuður. Í framhaldinu kom Bergrún Sóla og söng Ótrúlega blá í stað Hreindísar Ylfu Garðarsdóttir. Í tveimur laganna sem Erna Rut söng þá hljóp hún í skarðið fyrir Sigurlaugu Vordísi sem rétt eins og Hreindís Ylfa var ekki stödd á landinu.
Heiðursgestur kvöldsins var dívan hún Diddú og ef einhver óttaðist að nú yrði bara boðið upp á óperuaríur þá var það nú aldeilis ekki. Diddú var sjálfri sér lík, full af fjöri og geislandi af gleði. Hún byrjaði reyndar á að vinda sér í jólaútgáfu Jónasar Friðriks textasénís á lagi Andrea Bocceli, Con Te Partiro. Því næst kallaði hún Geirmund til sín og skelltu þau sér í sveiflulögin Lífsdansinn, Með vaxandi þrá og Vertu og tóku líka lagið um Nínu og Geira sem Diddú söng á sínum tíma með Bó og Brimkló. Lék nú allt á reiðiskjálfi í Miðgarði og fólk komið upp á afturlappirnar! Diddú flutti síðan fallegt lag Geirmundar, Jólastjörnur, í lok frábærrar skemmtunar.
Þá átti Geiri bara eftir að kalla fram allt sönglið kvöldsins og saman renndi hópurinn sér, ásamt áheyrendum, í Nú er ég léttur og eins og svo oft áður eftir kvöldstund með Geirmundi og félögum þá fór fólk mikið léttara út í myrkrið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.