Ingileif og Rúnar sigruðu á Skagfirðingamótinu í Borgarnesi

Skagfirðingamótið í golfi fór fram að Hamri í Borgarnesi um síðustu helgi. Þetta var í sjötta sinn sem kylfingar meðal burtfluttra Skagfirðinga héldu mótið í Borgarnesi, en það var fyrst haldið á Nesvellinum á Seltjarnarnesi árið 1998, eða fyrir 15 árum. Eftir að mótið var flutt í Borgarnes hefur þátttaka kylfinga úr Skagafirði aukist og létu nokkrir þeirra hretið ekki stöðva sig og mættu galvaskir suður. Hressilegur vindur lék um Skagfirðingana en sólin skein meira og minna allan daginn, sem yljaði keppendum um hjartarætur. Völlurinn var vel blautur eftir rigningar og margar sandgryfjur á kafi í vatni.

Yfir 100 kylfingar voru skráðir til leiks en á lokasprettinum urðu smá afföll. Engu að síður mættu nærri 80 á svæðið. Um er að ræða punktakeppni í karla- og kvennaflokki. Rúnar Snæland Jósefsson (maður Rakelar Ársæls) varð efstur hjá körlunum með 35 punkta, í öðru sæti varð Halldór Heiðar Halldórsson (litli bróðir Arnar Sölva) með 33 punkta og Guðjón Baldur Gunnarsson Guðjónssonar bakara með 33 punkta. Þar skammt á eftir komu kappar á borð við Steina Þórs, Þorstein Þorsteins frá Hofsósi, Guðbjart Halla Guðbergs og Kristján Grétar Kidda Skarp.

Í kvennaflokki sigraði rektorinn í Fjölbrautinni, Ingileif Oddsdóttir, sem var eiginlega á heimavelli með sínar borgfirsku rætur. Hún náði 33 punktum. Í öðru sæti kvenna varð Sigríður Einarsdóttir, dóttir Guðrúnar Eyþórs, með 31 punkt en þar sem hún spilaði sem gestur vann hún ekki til verðlauna. Næstar á eftir henni voru Birgitta Bjargmundsdóttir, kona Steina Hauks, Sigríður Ingibjörg Sveinsdóttir, sem nefndin kann því miður ekki deili á, og Hjördís Sigurjónsdóttir, kona Kidda Blöndal.

Punktahæsta parið voru þau Ingileif og Sævar Steingríms, Halldór Heiðar átti besta skor dagsins og fjöldi aukaverðlauna voru afhent. Meðal þeirra voru minningarverðlaun sem fjölskylda Kára Valgarðssonar gaf, en hann var löngum fastagestur á mótinu með allt sitt lið.Voru verðlaunin veitt fyrir 27. sætið í heildarkeppninni, eða sem svarar til meðalaldurs fjölskyldunnar, og í því sæti lenti Sævar Steingrímsson. Afkomendur Kára og Huldu voru allir mættir í Borgarnes og kann nefndin þeim þakkir fyrir framlagið og frábæra mætingu í mótið gegnum tíðina.

Skagfirðingurinn og sveitarstjóri Borgarbyggðar, Páll S. Brynjarsson, heilsaði upp á gamla sveitunga sína og afhenti verðlaun í mótslok. Hann afhenti einnig Jóhannesi Ármannssyni, framkvæmdastjóra Golfklúbbs Borgarness, þakkarskjal og afmæliskveðju frá skagfirskum kylfingum, í tilefni 40 ára afmælis klúbbsins.

Fjöldi glæsilegra verðlauna voru í boði fyrir keppendur og styrktaraðilar mótsins voru hvorki fleiri né færri en 44 talsins. Stærstu styrktaraðilar voru Límtré-Vírnet, FISK Seafood, Icelandair, Hótel Hamar, Bláa lónið, Seglagerðin Ægir, Sportís, Ölgerðin, Nói-Síríus, Franch Michelsen úrsmiður, Dale Carnegie, Flugfélag Íslands, Gilbert úrsmiður og Sjöfn Sigfúsdóttir. Aðrir góðir gefendur verðlauna voru: Arctic Trucks, Bakkus, Bókaútgáfan Hólar, Brimborg, Byko, Fiskkaup, Flugger-litir, Golfklúbbur Borgarness, Hlíðarkaup, Intersport, Íslandsbanki, Íslenska auglýsingastofan, Íslenska umboðssalan, Kaupfélag Skagfirðinga, Landsbankinn Sauðárkróki, Málarasmiðjan, Mjólkursamlag KS, Morgunblaðið, Nafir fasteignafélag, Passion bakarí, Rafsjá, Reynir bakari, Sauðárkróksbakarí, Smith & Norland, Skotta kvikmyndafélag, Steinullarverksmiðjan, Stöðin Borgarnesi, Sveitarfélagið Skagafjörður, Vodafone og HH Trésmiðir.

Mótnefnd færir öllum þessum aðilum bestu þakkir fyrir frábæran stuðning, sem og Blómastofu Friðfinns fyrir innpökkun verðlauna.

/BJB

.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir