Horaða jólatréð vekur lukku

Bókin Horaða jólatréð eftir Magnús B. Jónsson, sveitarstjóra á Skagaströnd, er komin út. Af því tilefni heimsótti Magnús nemendur í 1. og 2. bekk Höfðaskóla sl. föstudag til að afhenda þeim bókina. Einnig fengu þau litla tálgaða eftirmynd af horaða trénu, sem Magnús gerði handa þeim, til að vera með þeim á litlu jólunum.

„Börnin lofuðu að vera mjög góð við tréð en þau hafa verið að vinna verkefni upp úr sögunni núna á aðventunni því sagan hefur verið til í skólanum í nokkur ár,“ sagði Magnús í samtali við Feyki. Þegar bókin og tréð höfðu verið afhent sungu börnin fallegt jólalag fyrir gestina og horaða jólatréð, öllum til mikillar ánægju.

Ritun sögunnar um Horaða tréð á sér skemmtilega forsögu en Magnús segir að hún sé í raun skrifuð sem tölvupóstur. Hugmyndin að sögunni á rætur sínar að rekja til þeirra atburðar þegar lítið og rýrt jólatré kom eitt sinn til Skagastrandar og þótti ekki nógu gott sem aðal jólatréð í bænum. Þá tóku nokkur börn sig til og söfnuðu þá undirskriftum til að bjarga því frá að vera hent en í bréfinu stóð: „Jólatré, jólatré. Við vorkennum litla horaða jólatrénu og viljum ekki láta henda því.“

Teikningar Reynis Braga Ragnarssonar prýða söguna um Horaða jólatréð. Teikningar Reynis Braga Ragnarssonar prýða söguna um Horaða jólatréð.

Þegar Magnús kom heim eftir matarboð á jóladag árið 2007, varð honum hugsað til framtaks barnanna og einnig til bræðrasona sinna þriggja, sem eru búsettir í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Þá settist hann niður við tölvuna og byrjaði að skrifa söguna um Horaða tréð, þremur tímum síðar var sagan klár og send í tölvupósti vestur um haf.  Þar vakti sagan mikla lukku og féll í svo góðan jarðveg hjá einum þeirra, honum Reyni Braga Ragnarssyni, að hann ákvað að myndskreyta söguna. Einstaklega flottar teikningar Reynis, sem þá var einungis 11 ára gamall, prýða nú blaðsíður bókarinnar og gefa sögunni mikið líf og lit.

Skemmtilegu söguna um Horaða jólatréð má nálgast í Samkaup á Skagaströnd og á Blönduósi, í Skagfirðingabúð á Sauðárkróki, Eymundsson á Akureyri og í Eymundson Aðalstræti og Kringlunni í Reykjavík.

Að neðan má skoða myndir frá því þegar Magnús færði nemendunum Horaða jólatréð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir