Hitaveituframkvæmdir í Fljótum ganga vel
Undanfarna daga hefur verið unnið að borun á holu fyrir heitt vatn við Langhús í Fljótum en ráðgert er að hefja hitaveituvæðingu í Fljótum á næsta ári og er virkjun holunnar hluti af þeim framkvæmdum.
Nýja holan ber auðkennið LH-02 og er við hlið gamallar holu, LH-01, sem í dag er nýtt til húshitunar á Langhúsum og tveimur sumarhúsum við Hópsvatn.
„Borað var niður á um 200m dýpi og við fyrstu prófanir mælist sjálfrennsli úr holunni um 3,5 l/s og við dælingu allt að 6,5 l/s. Gera þarf ítarlegri prófanir svo hægt sé að segja til með vissu hvert nýtanlegt vatnsmagn borholunnar er. Hitastig vatnsins er um 98°C sem er sambærilegt eldri holu,“ sagði Indriði Þ. Einarsson sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs sveitarfélagsins Skagafjarðar í samtali við Feyki.
Verktaki við borunina var Ræktunarsamband Flóa og Skeiða ehf. Ráðgjafi við undirbúning og framkvæmd var Þórólfur Hafstað, sérfræðingur hjá Íslenskum Orkurannsóknum.
Að neðan má skoða myndir frá Skagafjarðarveitum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.