Hellingur af brosum á 17. júní
Hátíðarhöld í tilefni af þjóðhátíðardeginum 17. júní fóru fram á Sauðárkróki í gær í ágætu veðri. Meginhluti dagskrárinnar var á Flæðunum norðan sundlaugar, á tjaldsvæðinu, og þar ríkti fín stemning.
Skrúðganga fór frá Skagfirðingabúð eftir að yngri göngumenn höfðu sallað á sig blöðrum og andlitsmálningu með hjálp skátanna. Gengið var norður Skagfirðingabraut og kl. 14 hófst hátíðardagskrá á Flæðunum. Sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir vígslubiskup flutti hátíðarræðu og síðan steig fjallkonan, Snæbjört Pálsdóttir, í pontu og flutti ljóð Þorsteins Erlingssonar frá Hlíðarendakoti, Ísland. Í framhaldi af þessu hófust tónleikar og skátatívolí og teymt var undir börnum á hestbaki.
Reynir Snær og Ingunn Kristjáns tóku nokkur allra handa lauflétt lög og í framhaldinu hélt Reynir Snær áfram í félagi við félaga sína í Funk That Shit! sem voru þéttir með eindæmum. Svo léku Contalgen Mineral (meirihluti Contalgen Funeral) en þá var reyndar ljósmyndari Feykis búinn að yfirgefa svæðið.
En ekki var annað að sjá en að folk hafi verið ánægt, um 16 stiga hiti á svæðinu og einn og einn sólargeisli hitti í mark. Góður dagur á Króknum!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.