Hátíð hjá nemendum Árskóla

Gærdagurinn var sannkallaður hátíðardagur hjá nemendum Árskóla á Sauðárkróki en þá var farið í hina árlegu gleðigöngu skólans, þar sem krakkar og kennarar skólans klæddust litríkum skrúða og báru blaktandi fána um götur bæjarins, með fjörlega tónlist í farteskinu.

Dagurinn byrjaði snemma hjá nemendum 10. bekkjar, samkvæmt Óskari Björnssyni skólastjóra, og voru þau mætt kl. 7 um morguninn þar sem þau tóku á móti kennurum skólans er þau tíndust til vinnu. Þá höfðu þau umsjón með morgunmatnum og buðust svo til þess að annast kennslu hjá yngri nemendum skólans, þar til kæmi að Gleðigöngunni, en á meðan gátu kennarar slakað á og fengið sér kaffisopa.

Gleðigangan hóf göngu sína upp úr kl. 10 með Guðbrand Ægir Ásbjörnsson plötusnúð fremstan í flokki. Fyrsti viðkomustaður var Heilbrigðisstofnunin þar sem krakkarnir sungu nokkur lög fyrir þá heldri borgara sem þar dvelja.

Svo haldið áfram för niður Sæmundarhlíðina, út Skagfirðingabraut að Kirkjutorgi og þaðan var gengið að Árskóla við Freyjugötu. Þegar krakkana bar að garði var búið að kveikja upp í grillinu og gæddu svangir krakkarnir sér að pylsum og svala.

Í dag, 1. júní, fara svo fram skólaslitin og eru allir velunnarar skólans boðnir velkomnir á skólaslitin. Skólaslitin verða í Árskóla við Freyjugötu kl. 13:30 hjá 1. bekk, kl. 14 hjá bekk og kl. 14:30 hjá 3. bekk. Í Árskóla við Skagfirðingabraut verða skólaslitin hjá 4. - 8. bekk kl. 16 og hjá 9. - 10. bekk kl. 19:30.

Hér eru nokkrar myndir frá Gleðigöngu Árskóla.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir