Grindvíkingar höfðu betur á Sauðárkróksvelli í dag
Meistaraflokkur kvenna hjá Tindastóli tók á móti liði Grindvíkinga á Sauðárkróksvelli í dag. Markalaust var fyrsta hálftímann í leiknum en á 34. mínútu kom Dröfn Einarsdóttir Grindavík yfir. Á 42. mínútu bætti Guðrún Bentína Frímannsdóttir svo við öðru marki Grindvíkinga í leiknum og staðan 0-2 í hálfleik.
Tindastólsstúlkur komu sterkari inn í seinni háfleikinn og á 58. mínútu minnkaði Hugrún Pálsdóttir muninn og staðan orðin 1-2. Á 85. mínútu bætti Guðrún Bertína Frímannsdóttir svo við sínu öðru marki og þriðja marki Grindvíkinga í leiknum. Þremur mínútum síðar skorar leikmaður Grindavíkur sjálfsmark og spennan í leiknum jókst. Stólastúlkur gáfu sig allar í leikinn síðustu mínúturnar, en það dugði því miður ekki til. Lokatölur leiksins 2-3 fyrir Grindavík.
Mikil barátta var allan leikinn og liðin mjög jöfn. Stólastúlkur áttu nokkuð mörg góð færi í leiknum en markmaður Grindavíkur varði vel. Lið Grindavíkur er í 3. sæti riðilsins með 22 stig eftir 10 leiki. Tindastólsstúlkur eru í 6. sæti með 15 stig eftir 11 leiki.
Næsti leikur hjá Tindastóli er þriðjudaginn 29. júlí, en þá taka stelpurnar á móti liði Hamranna á Sauðárkróksvelli og hefst leikurinn kl. 20:00. Fjölmennum á völlinn og styðjum stelpurnar okkar! Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.