Góð þátttaka á viðburði Lummudaga
Lummudögum í Skagafirði lauk á sunnudaginn með opnun smábátahafnarinnar, en mikið mannlíf var í bænum alla helgina og góð stemming. Að sögn Sigríðar Ingu Viggósdóttur, einum af skipuleggjendum hátíðarinnar, gekk þetta allt saman mjög vel.
,,Við vorum mjög ánægð með allt saman. Það var góð þátttaka á alla viðburðina, fínt veður og góð mæting í Litlaskóg. Mér fannst vera fleiri núna en hafa verið áður, þó auðvitað sé erfitt að gera sér nákvæmlega grein fyrir því. Það voru greinilega margir að stíla inn á að koma norður þessa helgi í tilefni Lummudaga, það voru allavega þrjú bekkjarmót á laugardeginum og svo voru einnig lítil ættarmót. Við vorum líka rosalega ánægð með mætinguna í sápufótboltann, þangað komu 80 krakkar til að taka þátt og það var mjög mikil stemming. Alls voru 18 lið sem kepptu,” sagði Sigríður Inga.
Líkt og fyrri ár var farandsbikarinn veittur þeirri götu sem þótti vera með fallegustu og frumlegustu skreytingarnar. Dómnefndina í ár skipuðu íbúar Hólmagrundarinnar, en þeir sigruðu götuskreytingakeppnina 2012. Það voru íbúar Raftahlíðar 1 – 20 sem unnu götuskreytingakeppnina í ár og fengu afhentann farandsbikarinn.
,,Við viljum þakka öllum þeim sem tóku þátt í Lummudögum og án íbúanna í Skagafirði væri þetta ekki hægt. Við sjáumst svo aftur hress að ári!,, bætir Sigríður Inga við.
.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.