Gengið á Ennishnjúk - Myndir
Um helgina var göngugarpurinn Þorsteinn Jakobsson, gjarnan nefndur Fjalla-Steini, á ferð um Norðurland vestra í þeim tilgangi að ljúka göngu sinni á íslensk bæjarfjöll. Um er að ræða verkefni sem hann hóf fyrr á þessu ári og ætlunin er að gefa út bók með myndum og umfjöllun um þessi fjöll, sem seld verður fyrir Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna.
Gönguverkefnið með bæjarfjöllin hófst svo í vor og eru nú að baki einhverjir tugir fjalla. Að þessu sinni var gengið á Þrælsfell (Vatnsnesfjall) við Hvammstanga og Ennishnjúk við Hofsós. Blaðamaður Feykis tók meðfylgjandi myndir í blíðunni á föstudag, þegar Þorsteinn og ferðafélagar hans voru að leggja upp frá Enni í Unadal. Einhverjar þeirra eru líka teknar á Höfðaströnd og við Héraðsvötn.
Fyrr í sumar hafði Þorsteinn gengið að Tindastól við Sauðárkrók, Spákonufell við Skagaströnd og á eitt fjall við Blönduós. Hann segir að Vatnsdalsfjall fái líka að fljóta með í bókina, sem góð tenging milli svæðanna en þaðan er afar víðsýnt. En skildu allir bæir eiga sitt bæjarfjall? „Já það er alltaf hægt að finna eitthvað fjall sem einkennir hvern stað. Að vísu varð ágreiningur í bæjarstjórn Kópavogs um bæjarfjallið þar en ég vona að ég hafi ekki valdið vandræðum og ríg í bæjarfélögunum með þessu,“ segir Þorsteinn.
Með Þorsteini í för var Bragi Unnsteinsson auk þess sem Jóhanna Sveinbjörg Traustadóttir á Hofsósi slóst í för með þeim á Ennishnjúk og Kaldbak við Grenivík. Eftir þessa helgi á Norðurlandi á Þorsteinn aðeins fimm fjöll á Vestfjörðum eftir af þeim sem fjallað verður um í bókinni. Til stendur að gönguá þau ljúki í næstu viku. Áformað er að fjallað verði um rúmlega hundrað fjöll í bókinni og segist Þorsteinn ef til vill eiga eftir að bæta við aukafjöllum á einhverjum stöðum en hann gengur á fjöll allan ársins hring.
Eftir þetta verkefni tekur enginn lognmolla við hjá Þorsteini, því stefnan er sett á heimsálfutindana svokölluðu, í fylgd með pólfaranum Vilborgu Örnu Gissurardóttur. „Ég var nýbúinn að segja félaga mínum fyrir austan að ég ætlaði að fara að taka það rólega og ekki fara í fleiri stór gönguverkefni í bili þegar þetta kom upp,“ segir Þorsteinn brosandi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.