Gamla kirkjan á Blönduósi fær nýtt hlutverk
Menningarviðburður var haldinn í gömlu kirkjunni á Blönduósi sl. fimmtudagskvöld. Kirkjan var fullsetin og skapaðist þar afar sérstakt og notalegt andrúmsloft eins og fylgir gjarnan gömlum kirkjum.
Boðið var upp á fjölbreytta dagskrá en nokkrir rithöfundar búsettir á svæðinu kynntu og lásu uppúr bókum sínum sem þeir hafa gefið nýverið út. Jóhanna Kristín Atladóttir las úr bók sinni Í nýjum heimi og Birgitta Hrönn Halldórsdóttir og Ívar Snorri Halldórsson lásu úr smásagnaritinu Nokkur lauf að norðan II sem er gefin út af Töfrakonum. Þar var einnig Guðríður B. Helgadóttir frá Austurhlíð í Blöndudal komin til að lesa úr æviminningarbók sinni Þessi kona og Björn Líndal las nokkrar stuttar sögur úr Húnvetningasögu hinni nýju sem uppskar mikinn hlátur viðstaddra.
Á menningarkvöldinu var einnig kvikmyndasýning en sýnd var kvikmynd Sveins M. Sveinssonar From Nest to Duvet, sem fjallar um æðardúnsframleiðslu á Höfnum á Skaga. Þess á milli var boðið upp á fjölbreytt tónlistaratriði.
Í þágu menningar og lista
Gamla kirkjan var vígð árið 1895 en notkun hennar hætt við vígslu nýrrar kirkju á Blönduósi árið 1993. Kirkjan stóð auð um árabil fram til ársins 2007 að sóknarnefndin afhenti þeim Sveini M. Sveinssyni kvikmyndagerðamanni og Atla Arasyni hönnuði kirkjuna gegn því að koma henni í viðunandi horf. Kirkjan var afhelguð og fyrirhugað er að nýta hana með ýmsum hætti í þágu menningar og lista. Nú þegar kirkjan hafði verið gerð upp var komið að fyrsta formlega menningarkvöldinu og allir boðnir velkomnir.
Hér má sjá myndir frá Menningarkvöldinu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.