Gáfu eina milljón í lýsingu í kirkjugarðinum

Á fimmtudaginn var afhenti Lionsklúbbur Sauðárkróks sóknarnefnd Sauðárkrókskirkju einnar milljón króna peningagjöf. Er gjöfinni ætlað að ganga upp í kostnað við endurnýjun á lýsingu í kirkjugarði bæjarins.

Jón Sigurðsson, formaður Lionsklúbbs Sauðárkróks, afhenti gjöfina fyrir hönd klúbbsins. Fram kom í máli hans í vor væru fimmtíu ár liðin síðan klúbburinn var stofnaður. Fyrsta verkefni klúbbsins var að leggja rafmagnslýsingu í kirkjugarðinn og nú væri kominn tími til að endurnýja þessa lýsingu. Það væri því afar ánægjulegt að geta lagt málefninu lið.

Loks gat Jón þess að klúbburinn hefði á sínum tíma gefið búnað til að senda mynd og hljóð frá fjölmennum jarðarförum yfir í Félagsheimilið Bifröst. Nú þætti klúbbfélögum tímabært að bæta myndgæðin og lýstu þeir sig tilbúna til að koma að því verkefni.

Pétur Pétursson, formaður sóknarnefndar, veitti gjöfinni viðtöku, og færði Lionsklúbbnum þakkir fyrir góðan stuðning við hin ýmsu málefni fyrr og nú. Sömuleiðis þakkaði sr. Sigríður Gunnarsdóttir Lionsmönnum fyrir hversu góður bakhjarl þeir væru. /KSE

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir