Fulltrúar Árskóla á hinum landsfræga faraldsfæti

Það ríkti mikil stemning í nótt hjá 10. bekkingum sem mættu í Árskóla en þar beið þeirra rúta frá Suðurleiðum sem átti að flytja þessa hressu og spræku Króksara í Leifsstöð þar sem hópurinn steig inn í fararskjóta annarar gerðar sem átti að skutla þeim til Danmerkur. Jú, unglingarnir eru farnir í skólaferðalag til Danmerkur.

Ýmislegt hafa blessuð börnin aðhafst í vetur til að safna fyrir ferðinni. Þau settu leikritið Ronju ræningjadóttur á svið í Bifröst, dansað var maraþon, þau hafa séð um gangbrautarvörslu við Árskóla, gefið út skólablað og margt fleira.

Í nótt þegar krakkarnir mættu í skólann fengu þeir afhentar forláta peysur með merki Grettis framan á og svo höfðu krakkarnir valið sér einhverja setningu til að setja aftan á sína peysu. Ekki er spurning að fararstjórum á eftir að ganga betur að smala liðinu saman þegar öll hjörðin er í sama lit á Strikinu.

10. bekkingarnir flugu sem fyrr segir utan í morgun og verða umsvifalaust dregin í kaffiboð í Höjelse og síðan rekur hvert uppistandið annað. Á morgun verja krakkarnir deginum með dönskum nemendum í Köge og á laugardag verður kíkt yfir sundið til Malmö og svo til Köben þar sem krakkarnir munu sennilega aldrei áður hafa séð annað eins magn af reiðhjólum. Hópurinn er svo væntanlegur til landsins næstkomandi þriðjudag ásamt (þreyttum)  fararstjórum.

Útsendari Feykis, Jóhannes Atli foreldri, var staddur í Árskóla í nótt þegar krakkarnir voru að leggja í hann og tók nokkrar ágætar myndir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir